Lifðu betur: Meira en að segja það að taka upp stóra bók og lesa

Verkefnið „Lifðu betur“ var eitt af þeim sem fengu hæsta styrkinn þegar úthlutað var úr Uppbyggingarsjóði Austurlands nýverið. Tveir frumkvöðlar á Norðfirði standa á bak við verkefnið sem gengur út á að þróa fjargeðheilbrigðisþjónustu.


„Meginmarkmið verkefnisins er að auka aðgengi fólks að úrræðum og aðferðum sem hafa vísindalegan stuðningi og bæta geðheilsu og lífsgæði. Það ætlum við fyrst og fremst að gera með í gegnum tæknina,“ segir Orri Smárason, sálfræðingur í Neskaupstað.

„Aðgengi að úrræðum sem bæta geðheilbrigði og hafa góðan rannsóknarstuðning er heilt yfir ekki gott. Sálfræðiþjónusta er til dæmis óaðgengileg og dýr. Ein leiðin til að bæta úr því er að koma henni í námskeiðsform þannig að margir geti nýtt hana í einu. Okkar hugmynd gengur kannski skrefi lengra með að hafa námskeiðið samsett og aðgengilegt á netinu.“

Orri leiðir verkefnið ásamt vini sínum Sigurði Ólafssyni. Það fékk þriggja milljóna styrk úr sjóðnum, líkt og Havarí til þróunar á Sveitasnakki og LungA-hátíðin. Þetta voru hæstu einstöku styrkirnir en alls var 58,5 milljónum úthlutað til 80 verkefna.

Gera aðferðirnar aðgengilegri

Í grófum dráttum gengur Lifðu betur út á að gera sálfræðiþjónustu aðgengilega í gegnum netið en á vefsíðu verða til staðar myndbönd, lesefni og hljóðskrár sem byggja á aðferð sem kallast atferlis- og sáttameðferð. Á bak við verkefnið verður til staðar sérfræðingur til að aðstoða við flóknari úrlausnarefni.

„Þessi aðferðafræði vex hratt sem meðferðarform en hún er fyrst og fremst aðgengileg í bókaformi. Það er hægt að panta á netinu en það er ekkert til þýtt eða staðfært. Það er líka meira en að segja það að taka upp stóra bók og finna hvernig hún getur nýst þér. Markmið okkar er að gera aðferðafræðina aðgengilega, útskýra og leiða fólk í gegnum hana skref fyrir skref til að bæta sín lífsgæði,“ segir Sigurður.

Aðferðin tengist hugrænni atferlismeðferð sem margir þekkja. „Þetta er grein af sama meiði en í okkar huga að sumu leyti heppilegri nálgun,“ segir Orri. „Aðferðin gengur út á að eiga við erfiðar hugsanir og tilfinningar með hætti sem kannski er uppbyggilegri en menn hafa notað. Núvitund er hryggjarstykkið í aðferðinni en eins byggir hún mikið á gildum og markmiðasetningu.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.