Kvíði og þunglyndi vaxandi meðal ungra stúlkna: Geðheilbrigðisdagur á Austurlandi

Málþing um geðheilbrigsðisþjóunustu á Austurlandi verður haldið í grunnskólanum á Reyðarfirði á laugardaginn, en það er samstarfsverkefni HSA, Félagsþjónustu Fjarðabyggðar og Fljótsdalshéraðs, ME, VA, Virk og StarfA.



Sex erindi eru á dagskrá auk þess sem Listaakademía Verkmenntaskóla Austurlands verður með listgjörninga.

  • Nemendur deila reynslu sinni af baráttunni við geðræna sjúkdóma – erindi frá nemendum VA og ME
  • Fyrirlestur um kvíða – Orri Smárason sálfræðingur
  • Heilsueflandi samfélag – fulltrúi frá Landlæknisembættinu
  • Vaxandi kvíði og þunglyndi ungra stúlkna – Inga Dóra Sigfúsdóttir frá Rannsóknum og greiningu
  • Aðgerðaráætlun um geðheilbrigðismál – Guðrún Sigurjónsdóttir frá Velferðarráðuneytin
  • Hvað er í boði fyrir fólk með geðraskanir á Austurlandi – kynning á þjónustu helstu stofnanna á Austurlandi; HSA, Félagsþjónustu Fjarðabyggðar og Fljótsdalshéraðs, ME, VA, Virk og StarfA.

 

„Ekki nóg að hreyfa sig og borða hollt“

Þóroddur Helgason, fræðslustjóri í Fjarðabyggð, er einn af þeim sem er í undirbúningshóp Geðheilbrigðisdagsins. „Við viljum halda þessum málefnum á lofti og minna á mikilvægi þess að rækta bæði líkama og sál – en það er ekki nóg að hreyfa sig mikið og borða hollt, það þarf að huga að andlegri heilsu líka,“ segir Þóroddur.

Þóroddur segir að nýbúið sé að kynna niðurstöður könnunnar um geðheilbrigði unglinga á landsvísu. „Þar kom í ljós að kvíði og þunglyndi eru vaxandi, sérstaklega hjá ungum stúlkum, einnig hjá drengjum en alls ekki eins áberandi. Niðurstöður sýna að bein tengsl eru milli mikillar notkunar samfélagsmiðla og aukins kvíða, en bæði gera samfélagsamiðlar mikla pressu á fólk og veldur svefnleysi sem aftur ýtir undir kvíða. Við hérna fyrir austan vorum engir eftirbátar í þessum tölum, rétt fyrir neðan.

Við eigum ekki að sjúkdómsvæða allt heldur horfa okkur nær, hvað það er í umhverfinu okkar sem við getum lagað sjálf. Erum við sem foreldrar að virða reglur hvað varðar aldurstakmark á samfélagsmiðla? Við verðum að virða það rétt eins og útivistartímann. Erum við að fylgjast með hvað börnin okkar eru að gera á netinu? Erum við að passa að þau fái næga hvíld? Ef ekki má segja að þetta sé að hluta foreldravandamál. Við vitum þetta allt og þess vegna er talað um mikilvægi heilsueflandi samfélags, við verðum að taka ábyrgð á börnunum okkar og gera það sem í okkar valdi stendur til þess að minnka kvíða og álag.“

Málþingið stendur milli klukkan 10:00 og 13:00 og er öllum opið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.