Kurr yfir samfloti með óháðum

Kurr er meðal Sjálfstæðisfólks á Fljótsdalshéraði yfir framboði í sveitarfélaginu í slagtogi með óháðum. Óánægðir fundargestir gengu á dyr eftir að listinn var samþykktur á fulltrúaráðsfundi á fimmtudag.

Gengið var frá framboðslistanum á fundinum á fimmtudag og að þessu sinni eru einstaklingar sem ekki eru flokksbundnir á listanum undir merkjum óháða.

Eftir að tillaga uppstillingarnefndar að listanum var borin upp var orðið gefið laust um hana. Að því loknu lagði fundarstjóri til að klappað yrði fyrir listanum.

Samkvæmt heimildum Austurfréttar lagðist sá gjörningur misvel í fundargesti sem vildu fá að tækifæri til að greiða atkvæði gegn listanum, enda hafi þess verið getið í fundarboði að listinn skyldi borinn upp til samþykktar eða synjunar.

Þeir segja skýringar hafa vantað á því hvers vegna óháðir væru teknir með á listann og benda á að slíka hafi aldrei verið rætt, hvað þá samþykkt, á félagsfundi. Nokkrir fulltrúar gengu út af fundinum að svo búnu.

Þeir segjast finna fyrir því að vera sakaðir um að hafa gert það út af deilum í sveitarfélaginu út af ágreiningi um málefni, einkum mögulegum leiðum í fráveitumálum en hafna því, engin málefni hafi verið komin til umræðu á þessum tímapunkti.

Tækifæri til að fá öflugt fólk inn

Anna Alexandersdóttir, oddviti listans, segir framboðið með óháðum vera að tillögu kjörnefndar sem vann að því að stilla upp á listann. Eftir að hafa rætt við fjölmarga hafi nefndin metið það sem svo að tækifæri væri til að fá inn mjög öflugt fólk þótt það hafi ekki viljað taka það skref að skrá sig í flokkinn því það deili ekki að fullu með honum áherslum á landsvísu. Sumt af þessu fólki vilji vinna í málefnastarfi, aðrir hafi verið til í að gefa kost á sér á lista.

Því var tillagan lögð fram að höfðu samráði við aðalskrifstofu flokksins. „Fljótsdalshérað er sveitarfélag sem býr yfir óvenjumiklum tækifærum og þarf sterka forystu á næstu árum. Kosningarnar snúast ekki eingöngu um þau úrlausnarefni sem á borði okkar hvíla í dag, heldur um framtíðarsýn og nýtingu tækifæranna.

Mér líst mjög vel á það og er afar ánægð með þann öfluga hóp sem hefur gefið kost á sér. Um þetta eru hins vegar skiptar skoðanir hjá Sjálfstæðismönnum þó flestir sem ég heyri í séu ánægðir með það og ég virði það að meðflokksmenn mínir hafa margir sterkar skoðanir,“ segir Anna í svari við fyrirspurn Austurfréttar.

Hún segir fundarstjóra hafa lagt til lófaklappið þegar útséð hafi verið um að einhver vildi ræða listann þótt orðið hafi verið gefið laust. Í kjölfarið hafi fjórir af þrjátíu fundarmönnum gengið úr salnum og af því spunnist nokkur umræða.

Anna segir það ekki sitt hlutverk að leggja þeim orð í munn um ástæður en hún hefði kosið að hópurinn hefði getið fundarstjóra kost á að endurskoða aðferðafræði fundarins hafi það verið ástæðan.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.