Kirkjan í Loðmundarfirði skemmd

Útihurðin á Klyppsstaðakirkju í Loðmundarfirði var brotin upp og stórskemmd í síðustu viku. Lögreglan á Austurlandi óskar eftir upplýsingum um mannaferðir á svæðinu.

Komið var að kirkjunni fyrir helgi en henni hafði verið læst laugardaginn á undan. Þar með er ljóst að verknaðurinn hefur verið framinn einhvern tíman á því tímabili.

Hurðin er brotin eftir að hafa verið spyrnt upp og kirkjugólfið skítugt eftir að þeir sem á kirkjuna réðust óðu þar inn á skítugum skónum.

Hjá lögreglunni á Austurlandi fengust þær upplýsingar í morgun að málið væri í skoðun. Þeir sem veitt geta upplýsingar um mannaferðir í Loðmundarfirði fyrri hluta síðustu viku geta haft samband við lögregluna á Egilsstöðum í síma 440-0640 eða sent tölvupóst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Klyppsstaðakirkja var reist árið 1891 en prestur sat á staðnum til ársins 1888. Kirkjan hefur aldrei verið afhelguð og er þar messað einu sinni á ári. Hún er friðlýst og að undanförnu hefur verið unnið að endurbótum á henni.

Gert er ráð fyrir að farið verði í Loðmundarfjörð á morgun til að lappa upp á hurðina til bráðabrigða og loka kirkjunni fyrir veturinn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.