Kennsla í Háskólasetri Austfjarða gæti hafist haustið 2018

Fjarðabyggð, Háskólinn á Akureyri, stærstu fyrirtæki sveitarfélagsins og nokkrar lykilstofnanir gerðu í morgun með sér samkomulag um samstarf í menntamálum. Bæjarstjóri Fjarðabyggðar segir verkefninu ætlað að treysta búsetu í fjórðungnum til frambúðar.


„Í framhaldinu af byggðaráðstefnu á Breiðdalsvík síðasta haust var sest niður með stofnunum og stærstu fyrirækjum Austurlands til að ræða þróun samfélagsins og hverju við gætum unnið að saman til framtíðar.

Þessi hópur ákvað að menntamálin og háskólastigið væri það sem skipti mestu máli,“ sagði Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar við undirritun samkomulagsins á Eskifirði í morgun.

Verkefnastjóri og stýrihópur

Samkomulagið tekur til bæði grunnskóla og framhaldsskóla en stærsta verkefnið er á háskólastiginu þar sem stefnt er að uppbyggingu háskólaseturs með aðkomu Háskólans á Akureyri, líkt og gert hefur verið á Vestfjörðum í rúman áratug.

Samkomulagið gerir ráð fyrir að í verkefnið verði varið 14 milljónum króna á tveggja ára tímabili, þar af koma fjórar milljónir frá Fjarðabyggð. Stærsti kostnaðarliðurinn verða laun verkefnastjóra sem verður ráðinn.

Fyrsta skrefið verður skipan sex manna stýrihóps sem leiðir undirbúninginn. Í honum verða bæjarstjóri Fjarðabyggðar, rektor Háskólans á Akureyri, framkvæmdastjóri Austurbrúar, skólameistari Verkmenntaskóla Austurlands og þrír fulltrúar atvinnurekenda. Þá verður Menntaskólanum á Egilsstöðum boðinn aðild að stýrihópnum.

Samstarf við stærstu fyrirtækin

Kennsla gæti hafist í setrinu haustið 2018. Áhersla þess á að vera á verk-, tækni- og náttúruvísindi. Samkomulagið í morgun undirrituðu að auki fulltrúar Verkmenntaskóla Austurlands, Heilbrigðisstofnunar Austurlands, Loðnuvinnslunnar, Síldarvinnslunnar, Eskju, Alcoa Fjarðaáls, Launafls, Brammer og Vélaverkstæðis Hjalta.

Stofnunum og fyrirtækjum víðar að Austurlandi gefst færi á að koma að starfseminni og gert er ráð fyrir að hún verði fljótt færð út á fjórðungsvísu. „Við urðum að byrja á einhverju,“ sagið Páll Björgvin.

Aðsókn aukist í verk- og tækninám

Með samkomulaginu er haldið áfram uppbyggingu náms í Fjarðabyggð sem verið hefur í gangi síðustu ár, meðal annars með verknámsviku í vinnuskólum Fjarðabyggðar og bættri aðstöðu fyrir verk og tæknigreinar í grunnskólum Fjarðabyggðar.

Í samkomulaginu frá í morgun er gert ráð fyrir að verknámsvikan verði frá og með næsta skólaári inni í stundaskrá grunnskólanna. Þá fari nemendur í heimsókn í 2-3 fyrirtæki á hverjum vetri.

Gert er ráð fyrir eflingu Verkmenntaskólans með markaðsátaki og styrkari stoðum undir FabLab smiðju. Þá er gert ráð fyrir að fyrirtækin innleiði hvatakerfi sem auðveldi starfsmönnum eldri en 25 ára að stunda iðnám í kvöldskóla VA.

Í tilkynningu segir að undanfarin ár hafi þeim fjölgað sem velji verk- og tækninám að lokinni grunnskólagöngu í Fjarðabyggð. Hlutfall þeirra hefur farið úr 16% af þeim sem luku grunnskólanámi vorið 2012 í 33% vorið 2016.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.