Kennara skortir ef ekkert verður að gert

Forstöðumaður Skólaskrifstofu Austurlands varar við því að kennaraskortir blasi við innan fárra ára ef ekki verður gripið til gripið til aðgerða. Staða í leikskólum á svæðinu er sérstaklega varhugaverð.

Þetta var meðal þess sem fram kom í erindi Sigurbjörns Marinóssonar, forstöðumanns Skólaskrifstofu Austurlands, á málþingi sem Austurbrú stóð fyrir um tækniþróun og menntunarþörf á Breiðdalsvík í gær.

Á undanförnum árum hefur dregið úr aðsókn í kennaranám samhliða því sem meðalaldur stéttarinnar hefur hækkað. Í Reykjavík er uppsöfnuð þörf til ársins 2030 866 stöðugildi en um 30% kennara starfa á borginni. Á sama tíma er uppsafnaður fjöldi nýútskrifaðra 198.

Austurland fer ekki varhluta af þróuninni. Þannig hækkaði meðalaldur starfsmanna grunnskóla með kennsluréttindi í 47,3 ár árið 2016 úr 42,7 árum árið 1998. Réttindakennarar eru 89% kennara í austfirskum skólum samanborið við 94% á landsvísu.

Sigurbjörn benti einnig á að körlum í hópi kennara fækkar, árið 2001 voru þeir 21,3% en 14,6% nú. Konur eru 72,2% kennara í dag. Í tölum hans var kynjahlutfallið ekki greint meðal ófaglærða sem útskýrir það sem upp á vantar. „Það er æskilegt að þetta hlutfall sé jafnara,“ sagði Sigurbjörn.

Sigurbjörn benti hins vegar á að staðan væri sérstaklega erfið í austfirskum leikskólum þar sem faglærðum fækkar. 24% starfsfólks í skólunum eystra er með réttindi samanborið við 33% á landsvísu. 14% starfsmanna austfirsku skólanna eru ófaglærðir og 53% með önnur réttindi. „Þetta er mikið áhyggjuefni,“ sagði Sigurbjörn.

Aðalvandamálið er hins vegar að útgefin leyfisbréf leikskólakennara voru ekki nema 41 á landsvísu í fyrra en voru helmingi fleiri árið 2014. „Þetta er staða sem er grafalvarleg.“ Alls eru 63 menntaðir leikskólakennarar í fjórðungnum af 1729 alls í landinu.

Sigurbjörn benti á að verði ekkert að gert vofi kennaraskortur yfir. Til nokkurra þátta sé hins vegar að líta svo sem fjölda nemenda. Þeir voru um 1400 talsins í grunnskólunum eystra í fyrra og 670 í leikskólunum. Fjöldinn hefur verið stöðugur undanfarin ár.

Þróunin sé sú að nýliðunin sé lítil, stéttin eldist og störfin séu krefjandi. Þá leiti menntaðir kennarar í önnur störf þegar atvinnuástandið sé gott en í dag var skýrt frá því að grunnskólakennarar hefðu fellt nýjan kjarasamning.

Samband sveitarfélaga, menntamálaráðuneytið, háskólarnir og fleiri hagsmunaaðilar lögðu í janúar fram tillögur til að reyna að bregðast við þróuninni. „Ef þær ganga eftir er ekki víst að það verði þessi miklu skortur en það eru yfirgnæfandi líkur að það vanti upp á.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.