Jón Björn býður sig fram sem ritara Framsóknar: Mikilvægt að fara samhent út af flokksþingi

Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, hefur tilkynnt um framboð sitt til ritara Framsóknarflokksins. Hann segir flokksmanna bíða það verk að kjósa forustu flokksins eftir bestu samvisku.


„Eftir að hafa horft á atburðarásina ákvað ég að ég hefði hug á að leggja gott til málanna. Þingmenn sem hafa starfað sem ritarar flokksins hafa gert það vel en ég held að það sé ekki síðra að sveitastjórnarmaður sækist eftir embættinu og efli enn frekar tengingar innan flokksins,“ sagði Jón Björn í samtali við Austurfrétt í dag.

Í tilkynningu sem hann sendi frá sér í morgun segir Jón Björn að hans helstu áherslu mál séu að „efla enn frekar frekar starf framsóknarfélaganna á landsvísu með áherslu á að tengja betur starf milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar.“

Hann kveðst vilja efla þátttöku ungs fólks og kynna gildi flokksins sem byggi á samvinnu, félagshyggju og samræðustjórnmálum. Undir forustu flokksins í ríkisstjórn hafi skapast tækifæri til frekari lífsgæða og jafnaðar fyrir alla óháð búsetu.

Útlit er fyrir að Jón Björn verði sjálfkjörinn í embættið því enginn annar hefur enn boðið sig fram í það. Kosið verður á flokksþingi um helgina.

Augu flestra beinast hins vegar að formannskjöri milli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Sigurðar Inga Jóhannssonar. Jón Björn vildi ekki gefa upp neina afstöðu í því.

„Ég held að það sé rétt að flokksmenn fái ráðrúm til að taka afstöðu og kjósa eftir bestu samvisku án þess að við sem erum í framboði séum að ráða ferðinni í þeim efnum.“

Hann er einnig var um sig þegar spurt er úti í átök í flokknum síðustu daga sem birst hafa í skeytasendingum milli þingmanna.

„Það er eðlilegt að það séu átök þegar kosið er um formann á flokksþingi. Það skiptir mestu máli að við göngum samhent út af flokksþinginu í kosningabaráttu.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.