Orkumálinn 2024

Jákvæðni í garð sameiningar

Allar líkur á að sameining Breiðdalshrepps og Fjarðabyggðar verði samþykkt í kosningu á laugardag ef marga má viðmælendur Austurgluggans. Skólamál og fjármál virðast efst í huga íbúa.

Íbúar í Breiðdal virðast ætla að kjósa með sameiningunni og fjölmenna á kjörstað, samkvæmt fréttaskýringu sem birtist í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Til stendur að sameina grunnskólana á Breiðdalsvík og Stöðvarfirði undir einni yfirstjórn. Sátt virðist um tillögu um að samkennt verði tvo daga í viku á hvorum stað en á föstudaginn verði hvor nemendahópurinn í sínum skóla.

Foreldrar sem Austurglugginn ræddi við á Breiðdalsvík fagna niðurstöðunni og telja að það eigi eftir að styrkja börn þeirra félagslega að komast í stærri einingu. Þeir binda einnig vonir við eflt aðgengi að félagsstarfi.

680 milljóna meðgjöf

Fjármál sveitarfélaganna hafa verið nokkuð í umræðunni. Eitt af því sem liðkar fyrir sameiningunni er að Jöfnunarsjóðir hefur gefið vilyrði að leggja 680 milljónir með sameiningunni.

Af þeim fær Breiðdalshreppur 200 milljónir sem nýtist í brýnar framkvæmdir í sveitarfélaginu og byrjað verður á strax í sumar. Viðsnúningur hefur orðið í rekstri Breiðdalshrepps síðustu ár en þörf er á innviðauppbygginu.

Fjarðabyggð fær á móti 480 milljónir sem nýtast til að greiða niður skuldir, verkefni sem mikil vinna hefur verið lögð í undanfarin ár. Forsvarsmenn beggja sveitarfélaganna telja enn frekari fjárhagslegan ágóða felast í samrekstri.

Íbúarnir sjá einnig þessa gulrót. Viðmælendur úr báðum sveitarfélögum segja að tækifæri sé núna að nýta þessa meðgjöf til uppbyggingar. Breiðdælingar sjá fram á stöðnun eða mun hægari uppbyggingu verði gæsin ekki gripin. Allir eru sammála um að hættan sé sú að síðar verði sveitarfélögin þvinguð til sameiningar án nokkurrar meðgjafar.

Mestar áhyggjur úr sveitinni

Viðmælendur Austurgluggans telja andstöðuna við sameininguna mesta á Norðfirði og Mjóafirði, þaðan heyrðust þær raddir að Fjarðabyggð þyrfti að klára að sameinast innbyrðis áður en haldið yrði áfram. Þá eru efasemdir um kostnað við þjónustu sem dreifist um marga byggðakjarna.

Í Breiðdalshreppi koma mestu efasemdirnar koma innan úr Breiðdal. Íbúar í sveitinni hafa löngum verið þeirrar skoðunar að betra sé að sameinast upp í Hérað. Landbúnaður er öflugri í Breiðdal en nokkru öðru byggðarlagi Fjarðabyggðar, bændur óttast að verða undir í nýju sveitarfélagi.

Enn aðrir hafa áhyggjur af störfum sveitarfélagsins á Breiðdalsvík, ljóst er að 70% staða sveitarstjóra verður lögð niður og aðeins er lofað að skrifstofa sveitarfélagsins verði rekin út árið. Íbúar spyrja einnig um störf í áhaldahúsi og við höfnina. Í málefnasamningi segir að áfram verði áhaldahús á Breiðdalsvík en samstarf þess og hafnarinnar verði aukið.

Áður hefur verið rætt um sameiningu þessara tveggja sveitarfélaga, alvarlegast árin 2007-2010 en bar ekki árangur. Annars vegar var ýmsu ólokið út af sameiningu Fjarðabyggðar 2005, hins vegar voru margir Breiðdælingar ekki áhugasamir. Það virðist hafa breyst.

Nánar er fjallað um sameiningarkosningarnar í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.