Illa slasaður eftir fall í klettum í Njarðvík: Báturinn kominn út úr húsi níu mínútum eftir útkall

Björgunarsveitarmenn á Borgarfirði eystra brugðust hratt og rétt við þegar þeir héldu til bjargar sveitunga sínum sem slasaðist illa þegar hann hrapaði í Njarðvík við eggjatínslu á föstudag.


Maðurinn var að tína egg út með víkinni að norðanverðu ásamt þremur félögum sínum þegar hann féll fram af bjargi, lenti á bröttum kletti og þaðan áfram niður í grýtta fjöru, alls um tuttugu metra fall.

Ekkert farsímasamband var á staðnum og því varð úr að einn þeirra hljóp inn í Njarðvík til að láta vita af því sem gerst hafði. „Ég held að hann hafi aldrei hlaupið svona hratt áður,“ segir Bergvin Snær Andrésson, formaður björgunarsveitarinnar Sveinunga á Borgarfirði sem býr í Njarðvík og var heima hjá sér.

Það var ástæða til að hlaupa hratt. Þegar sá sem hljóp fór af stað var ekki vitað hvort sá slasaði væri lífs eða liðinn. Meðan hann sótti hjálpina fóru hinir tveir niður í fjöru og hlúðu að honum.

Heimafólk hljóp af stað

Bergvin hringdi í Neyðarlínuna, óskaði eftir að björgunarsveitin yrði kölluð út, sjúkralið ræst út frá Egilsstöðum og þyrla Landhelgisgæslunnar undirbúin þar sem ekki var hægt að komast að slysstaðnum nema á bát.

Faðir hans hljóp á næsta bæ eftir samatalstöðvum og aðstoðarmanni áður en þeir hlupu saman út með víkinni að slysstaðnum enda ekki fært á annan hátt. Annað heimafólk fylgdi á eftir með teppi og annan búnað.

Báturinn fljótt á flot

Inni í Bakkagerði fóru menn strax af stað við að koma gúmmíbát björgunarsveitarinnar á flot. Níu mínútur liðu frá útkalli þar til hann var kominn út úr björgunarsveitahúsinu og fimm mínútum síðar var hann kominn á sjóinn.

Einn maður sigldi á gúmmíbátnum en aðrir björgunarsveitarmenn fóru af stað með trillu. Um hálftíma eftir útkallið var björgunarliðið komið á staðinn.

„Við vissum ekkert hvernig ástandið var þegar við fórum af stað. Það var ekki fyrr en við vorum hálfnaðir með siglinguna sem við fengum upplýsingar frá manni í fjörunni í gegnum talstöðina að sá slasaði væri lifandi en illa meiddur.“

Erfiðar aðstæður á slysstað

Bergvin segir aðstæður í fjörunni hafa verið erfiðar. Klappir og grýtt við slysstaðinn þannig að bátarnir hafi lent í sandfjöru 50-100 metrum innar. „Þeir sem voru í fjörunni leiðbeindu okkur.“

Þar var hlúð að hinum slasaða og siglt með hann inn í Njarðvík þar sem sjúkralið var komið frá Egilsstöðum. Þá var liðinn um klukkustund frá útkallinu.

Þyrlan var komin í loftið en hún afturkölluð. Sá slasaði, sem er karlmaður á þrítugsaldri, var fluttur suður til Reykjavíkur með sjúkraflugi frá Egilsstöðum. Hann er á batavegi en er brotinn og skrámaður í andliti og höfuðkúpu og illa brotinn á höndum.

Allar ákvarðanir réttar

Um tuttugu manns tóku þátt í aðgerðunum af hálfu björgunarsveitarinnar á Borgarfirði. Bergvin segir félagana sammála um að útkallið sé það alvarlegasta á Borgarfirði árum saman. Hann er ánægður með hvernig allt gekk.

„Allar ákvarðanir voru réttar og allt gekk mjög hratt fyrir sig þótt við séum ekki sérþjálfaðir björgunarsveitarmenn á vikulegum æfingum. Það skipti líka máli að þeir sem voru með honum í eggjaleitinni hlúðu vel að honum. Meðal þeirra var ungur strákur nýbúinn á skyndihjálparnámskeiði.“

Rauði punkturinn sýnir slysstaðinn og guli punkturinn hvar björgunarsveitarmenn lentu bátum sínum þar við. Mynd: Austurfrétt/Skjáskot úr Google Earth.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.