Íbúar við Búðará beðnir um að sofa annars staðar í nótt

Íbúar í þeim húsum sem næst eru Búðará, utarlega í Seyðisfjarðarkaupstað, voru beðnir um að rýma hús sín fyrir nóttina. Áin hefur vaxið ógurlega í dag en þekkt er að skriður komi niður farveg hennar.


Íbúar minnst þriggja húsa við ána yfirgáfu hús sín í kvöld. Þeir höfðu þá fylgst með henni vaxa meðan þeir borðuðu kvöldmatinn.

Fossinn í ánni, eitt af einkennum Seyðisfjarðar, var orðinn þrefaldur. Áin bar þunga steina niður farveginn og glögglega heyrðist í þeim þegar þeir ultu fram, sem og þegar þeir köstuðust niður fossinn. Þá sáust svartir dílar koma fljúgandi þar niður.

Hlaup eru þekkt niður Búðará og eitt myndarlegt kom þar niður árið 1989.

Flæddi inn í hús

Dagmálalækur stíflaði ræsi svo rjúfa þurfti Garðsveg. Þar flæddi inn í hús. Húsráðendur sögðu lækinn hafa vaxið snögglega seinni hluta dags. Nágrannar, ættingjar og vinir hjálpuðu heimilisfólki að ausa vatninu út.

Bæjarstarfsmenn höfðu í nógu að snúast í allan dag við að hjálpa húseigendum við Lónið en þar flæddi inní kjallara.

Rigningin náði hámarki á Seyðisfirði um klukkan tvö í dag en tíma tekur fyrir vatnið að koma fram í ám auk þess sem rignt hefur áfram þótt krafturinn hafi ekki verið sá sami. Merki sáust um að farið væri að sjatna í þeim um miðnætti. Hvarvetna í fjallinu mátti sjá hvítfissandi læki berjast niður en árnar voru kolmórauðar.

Seyðfirðingar sem Austurfrétt ræddi við í kvöld rifjuðu upp að álíka rigningar og vatnavextir hefðu orðið á þjóðhátíðardaginn árið 2000. Þá hefði trúlega rignt jafnmikið á skemmri tíma. Úrkoman undanfarinn sólarhring mældist 170 millimetrar.

Vonast er til að heldur dragi úr eftir því sem kemur fram á nóttina en áfram verður fylgst með þróun mála á Seyðisfirði. Fulltrúar viðlagatryggingar komu þangað í kvöld.

Stanslaust mokað úr Hlíðarendaá

Á Eskifirði hefur orðið tjón á brúnni yfir Hlíðarendaá þrátt fyrir að skurðgröfur hafi verið þar við að moka úr farveginum frá því um kaffi. Menn töldu sig vera komna með vald á ánni en þá vildi ekki betur til en grafan bilaði og náði áin þá frumkvæði á ný.

Hún hefur borið með sér gríðarlegt magn af möl og drullu. Vegna vinnu við ofanflóðavarnir í Ljósá, næstu á fyrir innan, er henni veitt í Hlíðarendaána.

seydisfjordur urhelli 20170624 0018 web

seydisfjordur urhelli 20170624 0025 web

seydisfjordur urhelli 20170624 0070 web

seydisfjordur urhelli 20170624 0075 web

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.