Hótaði að drepa hafnarvörð ef hann drullaði sér ekki í burtu

Útgerðarmaður á Vopnafirði hefur verið dæmdur fyrir brot gegn valdstjórninni með að hóta hafnarverði lífláti í samskiptum þeirra á bryggjunni. Útgerðarmaðurinn baðst afsökunar á bræðikasti sínu eftir að löndun lauk.


Atvikið átti sér stað í maí árið 2015. Útgerðarmaðurinn var þá að koma í land eftir „erfiðan túr‘“ og var krafinn um afladagbók sem ekki var tilbúin af starfsmönnum Fiskistofu sem voru við reglubundið eftirlit.

Útgerðarmaðurinn sakar hafnarvörðinn að hafa legið á hleri og sagt honum að drulla sér í burtu. Þegar upp á bryggjuna var komið hafi hann „rekið bumbuna“ í hafnarvörðinn. Hann viðurkenndi fyrir dómi að það gæti hafa virst ógnandi hegðun. Að lokinni löndum baðst útgerðarmaðurinn afsökunar á framkomu sinni.

Hafnarvörðurinn kvaðst hafa verið á skyldustörf og heyrt af samskiptum útgerðarmannsins við starfsmenn Fiskistofu en ekki fylgst með þeim. Útgerðarmaðurinn hafi hins vegar farið að hamast á sér úr bátnum og meðal annars kallað „ég drep þig, ég drep þig.“ Hann hafi haldið áfram „með ljótum orðum“ eftir að upp á bryggjuna varið komið og reynt að ögra sér til átaka.

Hafnarvörðurinn sagðist í kjölfarið hafa læst vel að sér og fjölskyldunni að næturlagi. Þetta væri ekki i´fyrsta skipti sem útgerðarmaðurinn hótaði Vopnfirðingum. Hann bar á móti að hann hefði upplifað mótlæti í samfélaginu þar eftir að hann hóf rekstur fiskvinnslu, meðal annars sætt einelti útgerðarmanna sem væru á móti vinnslunni af ástæðum sem tengdust byggðakvóta.

Sakfellingin byggir að miklu leyti á framburði starfsmanna Fiskistofu sem staðfestu að útgerðarmaðurinn hefði hótað að drepa hafnarvörðinn ef hann drullaði sér ekki í burtu. Enginn vafi hafi verið að hverjum orðunum var beint. Annar starfsmaðurinn bar að honum hefði brugðið mjög þar sem hann hélt fyrst að hótuninni væri beint að sér.

Átökin hefðu síðan magnast upp eftir að upp á bryggjuna kom. Líflátshótun hefði verið endurtekin og útgerðarmaðurinn gengið að hafnarverðinum og þrykkt líkamanum í hann. Þeir staðfestu einnig afsökunarbeiðnina og að starfsmaðurinn hefði ekki verið hnýsinn heldur eingöngu að sinna starfi sínu.

Dómurinn lagði hins vegar minni trúnað á framburð tveggja vitna sem voru með í róðrinum og taldi þau draga taum útgerðarmannsins. Þau sögðust hafa heyrt skipanir til hafnarvarðarins um að drulla sér í burtu en engar líflátshótanir og verið þannig staðsett að þær hefðu ekki farið framhjá þeim. Annað vitnið kveðst ekki hafa séð neinar ýtingar á bryggjunni.

Útgerðarmaðurinn var því dæmdur í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára og til að greiða rúmar 600 þúsund krónur í sakarkostnað. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsivert brot.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.