Höskuldur boðar nýtt frumvarp um Reykjavíkurflugvöll

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, hyggst á morgun leggja fram á ný frumvarp um að flugvöllurinn í Reykjavík heyri undir ríkið. Hann vill líka að hvort ekki sé rétt að allt áætlunarflug innanlands verði flokkað sem almenningssamgöngur og styrkt á þeim forsendum.


„Það er ekki eðlilegt að aðilar í borgarstjórn Reykjavíkur geti einir tekið ákvörðun um eitt mikilvægasta samgöngumál þjóðarinnar,“ sagði Höskuldur á opnum fundi flokksins á Egilsstöðum í gær.

Hann benti á að loka hefði átt einni flugbraut í ár og vellinum í heild eftir átta ár „án þess að fulltrúar allra landsmanna hafi neitt um það að segja.“

Höskuldur hefur áður lagt fram frumvarp um að skipulagsvald flugvallarins verði tekið úr hendi borgarinnar og flutt til ríkisins. Það sama yrði gert við flugvellina á Egilsstöðum og Akureyri en Keflavíkurflugvöllur heyrir þegar undir ríkið.

Höskuldur sagðist finna „sífellt meiri og betri stuðning“ við frumvarpið.“

Hvassahraun óraunhæft

Í haust komu fram hugmyndir um nýjan flugvöll fyrir bæði innanlands- og millilandaflug í Hvassahrauni við Hafnarfjörð. Höskuldur telur þær hugmyndir óraunhæfar.

„Það verður aldrei byggður völlur í Hvassahrauni. Þegar hann kemur vilja flugfélögin sem lenda í Keflavík fara þangað og því leggjast þingmenn Reykjaness alfarið gegn því. Meðan staðan er sú verðum við að einbeita okkur að því að halda vellinum í Reykjavík,“ sagði hann og bætti við að helstu niðurstöður skýrslunnar hefðu verið að hugmyndir um velli á Lönguskerjum eða Hólmsheiði væru úr sögunni.

Ekki eðlilegt að dýrara sé að fljúga milli landa

Höskuldur ræddi einnig í gær hugmyndir um að niðurgreiða allt áætlunarflug innanlands til að ná niður verði. „Það er ekki eðlilegt að það sé dýrara að fljúga milli Egilsstaða og Reykjavíkur heldur en til útlanda.“

Flugfélag Íslands flýgur til Egilsstaða, Akureyrar og Ísafjarðar en flug þangað er ekki niðurgreitt. Höskuldur telur rétt að skoða þann möguleika á þeim forsendum að um almenningssamgöngur sé að ræða.

Hann segir að almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu hafi verið styrktar á þeim forsendum að ekki yrði farið í miklar framkvæmdir þar. Nú séu „heldur betur“ kröfur um framkvæmdir þar og því eðlilegt að skoða almenningssamgöngur á landsbyggðinni. Ríkið setji um milljarð í almenningssamgöngur en af þeim fari aðeins 50 milljónir út fyrir borgarsvæðið.

„Þetta er ekki sanngjarnt. Ef hægt er að niðurgreiða strætó um 900 milljónir á ári þá er það hægt með flug því það skiptir okkur máli fyrir heilbrigðisþjónustu og fleira.“

Almenningssamgöngur á landi fluttust til sveitarfélaganna fyrir fáum árum. Samband sveitarfélag á Austurlandi lét reyna á sérleyfi í dómsmáli gegn Sterna og tapaði. Skaðabótamál Sternu gegn sambandinu er nú í dómsmeðferð.

Höskuldur lýsti áhyggjum sínum af málinu á fundinum og sagðist vona að það „færi vel“ fyrir SSA þar sem sérleyfin yrðu að halda.

Fjarðarheiðargöng næst á eftir Dýrafjarðargöngum

Höskuldur situr í umhverfis- og samgöngunefnd en samgöngumálin voru töluvert fyrirferðamikil á fundinum. Hann lýsti þeirri skoðun sinni að göng undir Fjarðarheiði ættu að verða næst á eftir Dýrafjarðargöngum og svo væri hægt að vinna í hringtengingu Austfjarða.

Hann sagðist vonast til að samgönguáætlun kæmi inn í þingið fyrr en síðar til að hægt væri að vinna hana og afgreiða fyrir sumarið. Það tókst ekki í fyrra.

Meðal annars var rætt um einbreiðar brýr og umferðarslys ferðamanna en Höskuldur sagði sérstaka þörf á að skoða hálkuvarnir.

Hann var spurður um hvað hefði verið gert við fjármuni sem ætlaður voru í nýja brú yfir Jökulsá á Fjöllum sem var frestað. Hann sagði þá hafa farið „inn í hina stóru hít“ en hluta þeirra farið í önnur samgönguverkefni, svo sem Norðfjarðarflugvöll.

Hann sagðist líka bjartsýnn á að nýr vegur um Öxi færi að komast á framkvæmdaáætlun. „Ég hætti ekki að tala um þann veg fyrr en hann verður að veruleika.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.