Hitamet ekki staðfest strax

Veðurstofan bíður með að staðfesta hvort hitamet fyrir febrúarmánuð hafi verið sett á Eyjabökkum í gær. Hlýtt loft hefur verið yfir Austfjörðum síðustu daga.


„Það þarf að tékka betur á stöðinni, hvort hún sé ekki örugglega í lagi,“ segir Trausti Jónsson um 19,1 stiga hita sem mældist á Eyjabökkum í gær í svari við fyrirspurn Austurfréttar. Einhver tími mun líða áður en metið verður staðfest.

Mælirinn á Eyjabökkum er í 650 metra hæð yfir sjó og stóð þessi hiti í tvær mínútur. Önnur stöð á Brúðardal, milli Skriðdals og Reyðarfjarðar, sýni 17,8 stiga hita. Febrúarstöðvarmet voru sett allvíða. Í úttekt á bloggsíðu Trausta segir að met hafi verið slegin á 17 stöðvum sem staðið hafa frá því fyrir árið 2000.

Hitinn fór upp í 16 gráður á Seyðisfirði í gær og virðist það dægurmet fyrir 12. febrúar. Rétt er að hafa í huga að dægurmet falla öðru hvoru en erfiðra er að slá mánaðarmet.

Hæsti hiti sem mælst hefur á Íslandi í febrúar var 18,3 gráður á Hvammi undir Eyjaföllum 21 dag mánaðarins árið 2005. Þá mældist 18,1 gráðu hiti á Dalatanga 17. Febrúar 1998.

Þótt hlýtt hafi verið á Seyðisfirði í gær hefur mælst þar hærri hiti í febrúar. Það var 8. febrúar 1960. 16,9 gráður mældust á Seyðisfirði þann dag og 17 gráður á Dalatanga. Árin 2006 og 1984 mældist einnig 16 stiga hiti á Seyðisfirði í febrúar.

Spáð er hæglætis veðri fram eftir vikunni austan lands. Hitinn verður þó öllu lægri en í gær, eða um eða rétt ofan við frostmark.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.