Orkumálinn 2024

Heppinn að fara ekki lengra en á minnisvarðann

Einn meiddist lítillega þegar bifreið með fjóra innanborðs skautaði út úr beygjunni við Neðri-Staf á leiðinni til Seyðisfjarðar í gær. Bifreiðin endaði á minnisvarðanum sem þar stendur og geta farþegarnir prísað sig sæla með að hafa hafnað þar.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni é Egilsstöðum rann bíllinn út af í beygju í hálku í gær, lenti síðan á enn meiri hálku á bílastæðinu og skautaði þaðan á minnisvarðann.

Fjórir voru í bílnum og slasaðist einn þeirra lítillega.

Ljóst er hins vegar að enn verr hefði getað farið enda hátt fall fram af útsýnisstaðnum niður í Skessubotna.

Minnisvarðinn var reistur árið 1983 til minningar um Þorbjörn Arnoddsson, bifreiðastjóra á Seyðisfirði. Veturinn 1952-53 hóf hann snjóbílaakstur yfir Fjarðarheiði og rauf þar með vetrareinangrun staðarins.

Þorbjörn hlaut riddarakrossinn fyrir brautryðjendastarf á sviði samgöngumála.

Minnismerkið er gert úr stuðlabergi úr Hjaltastaðaþinghá. Forsúlan táknar þann sem ryður brautina og sækir á brattann en minni súlurnar fyrir aftan þá sem á eftir fylgja. Því var valin staður þar sem þeir sem koma yfir heiðina sjá kaupstaðinn fyrst.

Mynd: Sigrún Guðjónsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.