Helgi Ómar: Ef reiknilíkanið er snarvitlaust eru fjárveitingarnar ekki í samhengi við veruleikann

Helgi Ómar Bragason, sem í sumar lét af störfum sem skólameistari Menntaskólans á Egilsstöðum eftir um 25 ára starf, segir erfitt að átta sig á þeim fjárheimildum sem ætlaðar séu til framhaldsskólanna. Stefnuleysi framboða í menntamálum færi völdin í hendur stakra ráðherra eða utanaðkomandi afla.


Helgi Ómar hefur undanfarin ár verið framarlega í hópi skólameistara sem lýst hafa áhyggjum sínum af fjárheimildum framhaldsskólanna.

„Þetta hefur verið sérlega erfitt eftir hrun. Menn létu niðurskurðinn yfir sig ganga og tóku þátt í því með öðrum að vinna sig út úr hruninu og töldu að ástandið myndi lagast en það það er rétt svo að hægt er að halda skólanum gangandi og sumir glíma við hallarekstur,“ segir Helgi Ómar í viðtali í síðasta tölublaði Austurgluggans.

Veit aldrei hvernig árið endar

Skólameistarar hafa gagnrýnt reiknilíkan menntamálaráðuneytisins sem er forsenda úthlutunar fjármagnsins. „Meðallaun kennara eru inni í því en ráðuneytið virðist færa inn í það eftir því sem því sýnist og meðallaunin endurspegla ekki einu sinni raunveruleikann. Ef reiknilíkanið ef snarvitlaust eru fjárveitingarnar ekki í neinu samhengi við veruleikann.“

Og Helgi hefur fleira við útreikninga ráðuneytisins að athuga. „Leikreglunum virðist breytt eftir geðþótta. Ég hef aldrei áttað mig á hvernig árið kemur út því eftir á koma leiðréttingar, uppbætur og stundum frádráttur. Þetta er eins og að vera sendur út á tún með bundið fyrir augun og hendur fyrir aftan bak – tómt rugl.“

Sálræn áhrif Hrunsins að koma fram?

Hann hefur áhyggjur af áhrifum knappra fjárveitinga á velferð nemenda. „Ég hef grun um að nú séu framhaldsskólarnir að sjá afleiðingar hrunsins meðal nemenda sinna. Við göngum í gegnum það sama og Finnar, erfiðleikar koma nokkru seinna en kreppan.

Við sjáum aukinn kvíða hjá unglingum og þótt ég sé enginn sérfræðingur á þessu sviði grunar mann að þetta geti verið afleiðingar. Krakkarnir sem eru nú í framhaldsskóla voru börn í hruninu og upplifðu áföllin.

Það hefur ekkert verið gert í kerfinu til að koma á móts við þetta. Við hefðum þurft að ráða fagaðila eins og sálfræðinga eða hafa aðgang að þeim því þetta bitnar á náminu. Menn hrökklast úr því eða gengur illa þegar þeir eru ekki í standi til að vera í skóla.“

Hver át styttinguna upp eftir öðrum

Í aðdraganda þingkosninga kallar hann eftir skýrri stefnu framboðanna til menntamála. Honum þykir lítið hafa borið á henni.

„Ég hef ekki kynnt mér stefnuskrár flokkanna fyrir komandi kosningar en fyrir þær síðustu var yfirleitt komið að tómum kofanum þegar menntamál bar á góma. Menn átu hver upp eftir öðrum þessa speki um að stytta framhaldsskólann niður í þrjú ár. Þar fyrir utan virtist menntastefnan frekar óljós og ég hef ekki enn orðið var við mikla umræðu nú nema nokkrir segja að auka þurfi fjárveitingu til menntamála.

Ég óttast að ef flokkarnir hafa ekki skýra stefnu bjóði það upp á að til sögunnar komi ráðherrar sem fylgja bara eigin hugmyndum eða stefnu Verslunarráðs eða slíkra aðila.

Stytting námsins úr fjórum árum í þrjú er ekki nógu vel undirbúin. Það hefði þurft að taka upp allt kerfið, líka grunnskólann og hugsanlega fela sveitastjórnunum að reka framhaldsskólana líka. Við hefðum getað þróað svipað kerfi og Bandaríkjamenn þar sem háskólanáminu er lokið við 18 ára aldur.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.