Orkumálinn 2024

Hefði viljað greiða meira til samfélagsins

Sigfús Vilhjálmsson á Brekku í Mjóafirði er sá útvegsmaður sem borgar lægst veiðigjöld á landinu fiskveiðiárið 2016-2017. Síldarvinnslan í næsta firði greiðir mest austfirskra útgerða og þriðju hæstu gjöldin á landsvísu.

Rætt er við Sigfús í nýjasta tölublaði Fiskifrétta en hann greiddi 14 krónur í veiðigjöld og hafði þá fengið 4 krónur í afslátt.

„Jú, það var nú bara til að halda veiðileyfinu á bátnum, þá þurfti ég að veiða eitthvað,“ er haft eftir Sigfúsi í Fiskifréttum.

Hann segist ekki reikna með að fara mikið á sjóinn í sumar. „„Maður er náttúrlega orðinn fullorðinn og mikið til einn með búskapinn. Ég er með svolítið af rollum og þá fer sumarið í það.“

Það er hins vegar ekki svo að veiðigjöldin komi illa við Sigfús. „„Nei, því miður var það nú ekki meira. Ég hefði gjarnan viljað veiða aðeins meira til að geta borgað eitthvað til samfélagsins meira en fjórtán kall.“

Þrjár meðal ellefu stærstu

Síldarvinnslan greiðir mest austfirskra útgerða í veiðigjöld, rúmar 262 milljónir, samkvæmt samantekt sem Fiskistofa sendi frá sér í síðustu viku. Aðrar útgerðir í samsteypunni, svo sem Bergur-Huginn eða Gullberg, eru utan við þá tölu.

Tvær aðrar austfirskar útgerðir eru meðal þeirra 11 sem greiða yfir 100 milljónir í veiðigjöld, Eskja greiðir 125 milljónir og Loðnuvinnslan tæpar 109. Hæstu gjöldin greiðir HB Grand, 600 milljónir.

Sé horft til einstakra kaupstaða greiða útgerðaraðildar í Neskaupstað 311 milljónir í veiðigjöld. Hæstu veiðigjöldin koma úr póstnúmeri 101 í Reykjavík, um 900 milljónir, 570 milljónir úr Vestmannaeyjum, 362 milljónir úr Grindavík og 424 frá Akureyri. Nokkur sveifla er á milli veiðigjalda og álagðra veiðigjalda en reiknuð veiðigjöld eru hærri í Grindavík en á Akureyri.

Álögð veiðigjöld á Austurlandi fiskveiðiárið 2016/17

Neskaupstaður 310,2 milljónir
Fáskrúðsfjörður 131,2 milljónir
Eskifjörður 126,1 milljón
Seyðisfjörður 19,6 milljónir
Djúpivogur 17,6 milljónir
Breiðdalsvík 12,6 milljónir
Stöðvarfjörður 10,5 milljónir
Borgarfjörður 8,0 milljónir
Vopnafjörður 5,6 milljónir
Reyðarfjörður 1,1 milljónir
Mjóifjörður 375 þúsund
Egilsstaðir 79 þúsund
Hallormsstaður 10 þúsund

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.