Hafnaði endurupptöku meiðyrðamáls

Endurupptökunefnd hefur hafnað beiðni karlmanns á Eskifirði um að dómur yfir honum fyrir meiðyrði gegn lögregluþjóni verði tekin upp að nýju. Maðurinn taldi sig hafa ný gögn sem sönnuðu mál hans.

Upphaflega var gefin út ákæra í sjö töluliðum gegn manninum fyrir ærumeiðandi ummæli sem hann hafði um lögregluþjóninn á Facebook. Hæstiréttur sakfelldi manninn fyrir einn ákærulið og þyngdi um leið dóm héraðsdóms Austurlands.

Maðurinn skaut málinu til endurupptökunefndar á þeim forsendum að fyrir lægju yfirlýsingar tveggja kvenna sem tilbúnar væru að vitna um hegðun lögreglumannsins. Framhjá þeim hefði hins vegar verið horft við úrlausn málsins.

Þá vísaði maðurinn til fordæma Mannréttindadómstóls Evrópu gegn íslenska ríkinu um mörk tjáningarfrelsis og taldi að túlka ætti það rúmar en íslensku dómstólarnir gerðu.

Endurupptökunefnd taldi að yfirlýsingarnar ekki lýsa þeirri háttsemi sem maðurinn sakaði lögregluþjóninn um, að hann hefði haft í hyggju að misnota stöðu sína gagnvart táningsstelpum.

Í úrskurði nefndarinnar segir að í yfirlýsingunum sé lýst háttsemi sem væru ámælisverð af hálfu lögreglumanns, ef hún væri sönnuð, en þær fjalli um annars konar hegðun en hann hafi verið sakaður um. Þá hafi skilaboðin sem lögregluþjónninn var sakaður um ekki verið send til kvenna á táningsaldri.

Beiðni um endurupptöku var því hafnað þar sem yfirlýsingarnar teldust ekki ný gögn né bentu þau til þess að sönnunargögn hefðu verið rangt metin svo það hefði áhrif á niðurstöðu málsins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.