Orkumálinn 2024

Grjótharður fengur hjá Ljósafellinu

Áhöfnin á Ljósafellinu frá Fáskrúðsfirði krækti í heldur óvenjulegan feng í síðustu veiðiferð þegar margra tonna steinn kom upp í trollinu. Skipstjórinn segir merkilegt að veiðarfærið hafi haldið í átökunum.

„Það er ótrúlegt að trollið skyldi koma heilt upp. Ef við hefðum híft hratt þá hefði pokinn og jafnvel hluti trollsins getað orðið eftir. Veiðarfærið var hins vegar nýtt og það sterkt að það hélt.

Það gekk vel að losa steininn úr. Pokinn var það eina sem rifnaði en við löguðum hann á 20 mínútum og köstuðum aftur,“ segir Hjálmar Sigurjónsson sem var skipstjóri í ferðinni.

Steinninn virðist hafa verið 1-1,5 metrar á hæð og breidd og uppundir þrír metrar á lengd. Spilið var notað til að koma honum út í sjóinn á ný en kraninn um borð tekur ekki meira en fjögur tonn.

„Við vitum ekki hvað þetta var þungur steinn. Þetta virkaði eins og sandsteinn en var frekar massífur og mjög harður steinn. Hann fór alla veganna í heilu lagi út aftur.“

Skipið var að draga á Grindavíkurdýpi þegar bjargið kom upp. Hjálmar segir að yfirleitt fari grjót í botninum í gegnum pokann

Hjálmar segir að skipverjar hafi ekki orðið vara við neitt fyrr en steinn birtist. „Við erum með mælitæki á trollinu sem sýna ef við erum að lenda í grjóti. Stýrimaðurinn á vakt varð ekki var við neitt svo það er mjög trúlegt að steinninn hafi komið þegar byrjað var að hífa.“

Ljósafellið var í togararalli Hafrannsóknarstofnunar þegar það veiddi steininn. Það kom til Fáskrúðsfjarðar í byrjun vikunnar eftir tveggja vikna úthald. Hjálmar segir að túrinn hafi almennt gengið vel.

„Við lönduðum 170-80 tonnum af fiski í 145 klukkutíma togum og fengum oft fín hol, upp í 8-10 tonn af ýsu og þroski. Það hefur sjaldan verið betra veður á okkur, ríkjandi norðaustan átt allan tímann og við vorum bara í góðum gír.“

Mynd: Af vef Loðnuvinnslunnar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.