Orkumálinn 2024

Grannaslagur fyrir opnum tjöldum í kvöld

„Það er vissulega mjög áhugavert að dragast á móti þeim,“ segir Jökull Logi Sigurbjarnarson, meðlimur liðs Verkmenntaskóla Austurlands í Gettu betur, spurningakeppni framhaldsskólanna. Skólinn mætir grönnum sínum í Menntaskólanum á Egilsstöðum í annarri umferð keppninnar í kvöld.

 Auk Jökuls Loga eru þær Marta Guðlaug Svavarsdóttir og Hekla Gunnarsdóttir í liði Verkmenntaskólans, en þau sigruðu Menntaskólann á Ísafirði í hörku viðureign í fyrstu umferð keppninnar með 31 stigi gegn 29.

Lið Menntaskólans á Egilsstöðum skipa þau Ása Þorsteinsdóttir, Björgvin Ægir Elísson og Kristófer Dan Stefánsson, en það vann Menntaskólann á Laugarvatni með 39 stigum gegn 15 í fyrstu umferð. Frétt um það má lesa hér.

Liðin mættust síðast árið 2006

Eftir að dregið var í aðra umferð síðastliðinn föstudag var það ljóst að um grannaslag yrði að ræða. Liðin mættust síðast árið 2006, í fyrstu umferð keppninnar, þar sem ME hafði betur með 16 stigum gegn 14.

Sigurlið kvöldsins fer áfram í sjónvarpshluta keppninnar. Menntaskólinn á Egilsstöðum komst í undanúrslit í fyrra og Verkmenntaskólinn hefur einu sinni komist í þann hluta, en það var árið 2002 og komst liðið þá í undanúrslit.

Stressið rennur af þegar hann sest í keppnisstólinn

„Við erum mjög vel stemmd og erum búin að vera að æfa í allan dag. Að sjálfsögðu stefnum við á sigur sem þá skilar okkur í sjónvarpshluta keppninnar,“ segir Jökull Logi. Aðspurður um hvort stressið segi ekki til sín og hafi áhrif á keppnina segir hann; „Ég er mjög stressaður fram að keppni, en þegar ég sest í stólinn fer það.“

Bæi lið ætla sér sigur í kvöld þannig að um hörku keppni verður að ræða, en hún verður send út í beinni útsendingu á Rás2 frá Valaskjálf. Keppni hefst klukkan 20:30 og verður öllum opin.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.