Orkumálinn 2024

Gjafir vinsamlegast afþakkaðar í úrslitaþætti Útsvars

RÚV vill ekki að liðin sem keppa í úrslitaþætti Útsvars í kvöld skiptist á gjöfum í lok útsendingarinnar eins og venja hefur verið. Stuðningsaðilar og aðstandendur liðanna eru ósáttir við þá ákvörðum. Útsendingarstjóri segir úrslitaþáttinn frábrugðinn öðrum.


„Við fengum fyrirmæli um þetta á þriðjudag. Við gerðum athugasemdir við að þau kæmu of seint fram þar sem við værum búin að lofa fyrirtækjum að taka þátt í þessu,“ segir Birgir Jónsson, upplýsingafulltrúi Fjarðabyggðar.

Fjarðabyggð mætir Akranesi í úrslitaþætti keppninnar í kvöld. Hefð hefur verið að keppendur þáttanna skiptist á gjöfum eftir að úrslit liggja fyrir og hafa fyrirtæki úr sveitarfélögunum nýtt tækifærið til að koma vörum sínum á framfæri um leið en sýna um leið stuðning sinn við þátttakendur.

Birgir segir að bæði hans og umsjónarmaður liðs andstæðinganna í kvöld, Akraness, hafi sent inn athugasemdir. Þeim hafi verið bent á að skiptast á gjöfum að útsendingu lokinni og það geri þau. Einn aðili hafi dregið sig út úr hópnum hjá Fjarðabyggð og margir íhugi það hjá Akranesi.

Það eina sem keppendur fá

Gagnrýnin lítur að nokkrum þáttum. Í fyrsta lagi selur RÚV útvarpsauglýsingar til fyrirtækja í sveitarfélögunum í aðdraganda þáttarins. Í öðru lagi leggi sveitarfélögin metnað í að halda vel utan um lið sín og finna öfluga keppendur. Með gjöfunum sé verið að vekja athygli á hvað sé að finna innan þeirra.

Í þriðja lagi má nefna að keppendur í þáttunum fá ekki aðrar greiðslur frá RÚV fyrir þátttökuna aðrar en útlagðan kostnað skil þeir inn reikningum. Það séu þeir sem dragi áhorfendur að einum vinsælasta þætti RÚV og verji oft töluverðum tíma í undirbúning. Fyrir þá hafa gjafirnar verið helsta umbunin fyrir þann tíma.

RÚV verðlaunar í kvöld

Helgi Jóhannesson, útsendingarstjóri, segir ekki bannað að koma með gjafir enda sé liðunum frjálst að skiptast á þeim eftir að útsendingu lýkur. Hann segir engar fastar reglur um gjafir í Útsvarsþáttunum en úrslitaþátturinn sé nokkuð frábrugðinn öðrum. 

„Við erum með mikinn bisness í kringum hann. Við afhendum ekki verðlaun eftir hvern þátt en við erum með þau í kvöld. Til að útsendingin verði ekki lengri en nóttin báðum við fólk um að gera ekki ráð fyrir 10 mínútna auglýsingu.“

Sigurvegarinn fær farandgrip, Ómarsbjölluna, og pening frá RÚV sem rennur í góðgerðarmálefni sem liðið velur. Helgi bætti við að vissulega hefðu úrslitaliðin í fyrra skipst á gjöfum en það hefði gerst „fyrir mistök.“ Í gegnum sögu þáttanna hafi ekki verið gjafir í úrslitaþáttunum. Þá bætir hann við að engar athugasemdir hafi borist frá fulltrúa Akraness um fyrirkomulagði í kvöld.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.