Gengur ekki að varavélarnar séu út um hvippinn og hvappinn

Atvinnurekandi á Breiðdalsvík segir margra tíma rafmagnsleysi koma illa niður á bæjarlífinu. Bærinn var án rafmagns í sjö tíma í gær. Varavél sem þjóna á svæðinu er suður í Öræfum. Breiðdælingar eru ósáttir við að ekki hafi verið staðið við áætlanir um úrbætur til að koma í veg fyrir langtíma rafmagnsleysi.


Rafmagn fór af Breiðdalsvík og næstu bæjum klukkan 14:18 í gær og komst ekki aftur á fyrr en 21:24 eða rúmum sjö tímum síðar. Langan tíma tók að leita að biluninni í jarðstreng næst aðveitustöðinni á Ormsstöðum í Breiðdal.

„Það er ekki hægt að landa fiski, ekki hægt að koma línu eða beitu um borð í báta á leið á sjó, nýstofnaða þvottahúsið var stopp, vörur geta skemmst í versluninni, hótelið virkar ekki sem skildi og framleiðslan í brugghúsinu hefði getað eyðilagst hefði ferlið verið á öðrum stað,“ segir Elís Pétur Elísson, atvinnurekandi á Breiðdalsvík.

Alltof langur tími án rafmagns

Það að rafmagnið fari af er ekki það sem veldur honum mestum áhyggjum heldur hversu lengi það er úti og á það hafa Breiðdælingar áður bent.

Í desember 2014 var þorpið án rafmangs í sólarhring. Þá komu upp umræður um varaaflstöð sem á að vera tiltæk á Fáskrúðsfirði. Þá var hún norður á Þórshöfn vegna gossins í Holuhrauni. Í sumar hefur hún verið suður í Öræfum þar sem Smyrlabjargavirkjun hefur verið biluð.

„Ég get skilið að það bili en ekki að varavélarnar séu út um hvippinn og hvappinn í fleiri mánuði. Hví var ekki önnur varavél komin á Fáskrúðsfjörð? Þetta er eins og að setja fötu undir leka og hún svo færð þegar fer að leka annars staðar,“ segir Elís Pétur.

„Tíminn sem rafmagnið er frá er alltof langur. Það hlýtur að vera til einhver áætlun um viðbragðstíma á varavélum. Þetta er annað skiptið í röð sem varavélin héðan er færð annað. Þá var okkur lofað að hlutirnir yrðu lagaðir en það var ekkert lagað.

Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á þetta. Ef ekki verður bætt úr verða þessi sveitarfélög að setja upp eigin rafstöðvar sem hægt er að keyra í gang.“

Fjórar varavélar bundnar í Þingeyjasýslum

Í yfirlýsingu sem Austurfrétt barst frá Rarik í kjölfar fyrirspurnar segir að fyrirtækið hafi undanfarin ár fjölgað færanlegum varavélum og útbúið þær þannig að auðvelt sé að flytja þær. Þær hafi oft reynst vel.

Fjórar þeirra eru norður í Þingeyjasýslum þar sem unnið er við Kópaskerslínu. Þær voru ekki í notkun í gær en í svari Rarik segir að minnst fjóra tíma hefði tekið að flytja lausa vél í Breiðdal, fyrir utan tengivinnu.

„Starfsmenn RARIK mátu það svo að viðgerð í Breiðdal yrði lokið fyrir þann tíma. Ef vélin hefði verið á Fáskrúðsfirði, þá hefði sú vél verið flutt strax í Breiðdal,“ segir í svarinu.

„Það er hins vegar slæmt að hafa varavélarnar ekki tiltækar þegar bilun verður í dreifikerfi RARIK af því að þær eru að sinna vandamálum flutningskerfisins, sem því miður fara vaxandi á Norður- og Austurlandi.“

Rúmt ár í nýja aðveitustöð

Endurbótunum á Kópaskerslínunni verður haldið áfram í september. Ekki er heldur ljóst hvenær vélin frá Smyrlabjörgum kemur aftur. Dreifikerfið þar annar ekki auknu álagi án virkjunarinnar- og reyndar dugir hún ekki einu sinni til.

„Það er einnig ljóst að í vetur mun raforkukerfið í Öræfum ekki anna álagi á svæðinu þótt virkjunin sé tengd, nema varavél keyri þar undir og hefur þetta verið ljóst í nokkurn tíma. Beðið er eftir nýrri aðveitustöð sem Landsnet mun byggja á byggðalínunni við Hnappavelli og vonast er til að hún komist í notkun veturinn 2018/2019,“ segir í yfirlýsingu RARIK.

Um svipað leiti, eða eftir rúmt ár, verður aðveitustöðin á Ormsstöðum, þar sem bilunin kom upp í gær, lögð af og önnur nær þorpinu á Breiðdalsvík tekin í gagnið. Jafnframt verður lagður jarðstrengur milli Stöðvarfjarðar og Breiðdalsvíkur en lína yfir Fossaskarð tekin úr notkun. „Þessar aðgerðir eru hugsaðar til að bæta afhendingaröryggið á þessu svæði og ekki síst á Breiðdalsvík og nágrenni.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.