Ganga hart á eftir verktakanum að sýna framfarir

Bæjarstjóri Fjarðabyggðar segir verktaka að byggingu raðhúsa við Skólaveg á Fáskrúðsfirði hafa takmarkaðan tíma til stefnu til að klára húsin. Fleiri áhugasamir bíði.


Húsgrunnarnir við Skólaveg 98-110 hafa staðið hálfkláraðir í nær áratug. Fyrsta skóflustunga að húsunum var tekin sumarið 2006 og þá sögð marka „tímamót í byggingasögu Fáskrúðsfjarðar.“

Þau áttu að vera tilbúin að utan í lok þess árs og fullbúin árið 2007. Verktakinn lenti hins vegar fljótt í vandræðum. Eftir margra ára kyrrstöðu fóru húsin í hendur nýs verktaka en húsin mjakast hægt.

Spurt var út í stöðu framkvæmdanna á íbúafundi á Fáskrúðsfirði í gær. „Það hefur gengið mjög illa að halda verktökunum við þá áætlun sem þeir lögðu fram,“ svaraði Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri.

Hann sagði að þrýst hefði verið á verktakana að ganga betur frá húsunum eftir áramót. Eins hefði verið settur þrýstingur á að öllum teikningum væri skilað inn þar sem húsin hefðu ekki verið fullhönnuð. Vonandi kæmist skriður á verkið með sumrinu.

„Verkið verður tekið af þessum verktökum mjög fljótlega virði þeir ekki þá fresti sem nú hafa verið settir. Það er snúið þegar samningssamband er komið á að stýra verkinu ef menn standa sig ekki en við vonum hið besta.

Það eru aðilar sem hafa áhuga á að koma á eftir þeim enda vantar húsnæði hér. Það er vel rekið á eftir þessu máli.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.