Fyrsta hleðslustöðin fyrir rafbíla sem opin er almenningi

Á þriðjudag var tekin í notkun fyrsta hleðslustöðin fyrir rafbíla sem opin er almenningi á Austurlandi. Von er á fleiri slíkum stöðvum innan tíðar.


Stöðin stendur við íþróttamiðstöðina á Egilsstöð en Austurbrú fékk nýverið styrk til að koma fyrir slíkum tenglum í öllum þéttbýliskjörnum á Austurlandi.

Mestum styrknum er úthlutað á næsta ári en nokkur sveitarfélög ætla að fara strax af stað. Nokkrar einkastöðvar eru komnar upp, meðal annars setti Vopnafjarðarhreppur nýverið upp stöð við áhaldahúsið eftir að hafa keypt rafbíl.

Þá undirbúa einkaaðilar, svo sem Olís í Fellabæ og Orka náttúrunnar á Vopnafirði og Fáskrúðsfirði, opnun slíkra stöðva.

Helgi Hrafnkelsson var fyrsti viðskiptavinurinn á rafbíl sem hann var nýbúinn að fá afhentan hjá Bílaverkstæði Austurlands. Bíllinn kom fyrir nokkrum vikum en Helgi sagðist ekki hafa sótt bílinn fyrr en hann vissi að stöðin væri komin upp.

Hleðslustöðvum fyrir rafbíla hérlendis hefur fjölgað töluvert síðustu misseri. Nú eru komnar fimm stöðvar milli Reykjavíkur og Akureyrar svo fært er þá leið á rafbíl. Næst þéttist netið væntanlega meðfram suðurströndinni.

Rafmagnið er frítt í stöðinni fyrst í stað en reiknað er með að innan tíðar hefjist gjaldtaka. Enn er engin gjaldtaka fyrir rafmagn á hleðslustöðvum og því ekki ljóst hvort fyrirtækin rukki fyrir rafmagnið eða þann tíma sem bíl er lagt við stöð meðan hann er hlaðinn.

Almennt er reiknað með að eigendur rafbíla hlaði þá heima hjá sér en stöðvar sem þessi nýtist gestum. Þeir þurfa að koma með eigin kapal til að tengja bílana.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar