Fyrrverandi ME-ingur boðaði nýja upplifun í tölvuleikjaspilun á stórviðburði Apple

Atli Már Sveinsson, fyrrverandi nemandi í Menntaskólanum á Egilsstöðum, var meðal þeirra sem kynntu nýjar vörur á viðburði sem Apple fyrirtækið stóð fyrir í gær. Atli Már er framkvæmdastjóri nýs tölvuleikjafyrirtækis sem þróað hefur leik sem byggir á viðbótarveruleika.

Viðbótarveruleiki (e. augmentend reality [AR]) byggir á að tölvan, í þessu tilfelli sími, skynjar það sem er að gerast í umhverfi notandans og leggur sýndarveruleika ofan á það. Dæmi er að geta skoðað himinhvolfið á sama tíma og síminn segir hvaða stjörnumerki sjást og svo framvegis.

Fyrirtæki Atla Más kynnir til sögunnar fyrsta fjölspilunarleikinn sem spilaður er að öllu leyti í viðbótarveruleika. Spilarar geta barist annað hvort gegn hverjir öðrum á netinu eða við stofuborðið.

„Við munum upplifa leiki á algjörlega nýjan hátt. Það sem þið sáuð hér er ótrúlegt þróun í hvernig leikir eru spilaðir,“ sagði Atli á kynningunni í gær.

Þú ert í leiknum

Atli Már stýrir fyrirtæki sem heitir Directive Games og er staðsett í Shanghai í Kína. Það var stofnað fyrir þremur árum af reynslumiklum leikjahönnuðum.

Viðbótarveruleikinn leyfir spilurum meðal annars að nýta stöðu sína í kjötheimum til að ná forskoti í tölvuleiknum. Þegar notandinn er nær baráttunni hækkar hljóðið en lækkar þegar hann færist fjær. Þá hafa fastir hlutir áhrif á hvernig það dreifist.

„Það sem spilarar geta upplifað leikinn frá öllum sjónarhornum þarf hönnun leiksins að vera ótrúlega nákvæm. Þú stjórnar ekki bara leiknum heldur ertu í leiknum.“

Nýtir tækni Apple

Atli Már var meðal gesta á svokölluðum Apple Event sem Apple fyrirtækið heldur til að kynna nýjar vörur. Slíkir viðburðir eru haldnir tvisvar til þrisvar á ári og reynir fyrirtækið alla jafna að halda því sem verður kynnt leyndu til að kynda undir spennu. Tækniblaðamönnum er boðið til viðburðanna auk þess sem þeir eru sendir út í beinni vefútsendingu til milljóna áhugasamra um allan heim.

Í gær kynnti Apple meðal iPhone X símann og iOS 11 stýrikerfið. Síminn byggir á hinum nýja A11 örgjörva en þessi tækni er sérstillt fyrir viðbótarveruleika og leikjaspilun.

Atli Már var fenginn til að sýna getu tækjanna en fyrirtæki hans hefur hannað leikinn The Machines sem kemur út í næsta mánuði.

Atli Már er fæddur og uppalinn á höfuðborgarsvæðinu en hleypti heimdraganum á táningsárunum og nam við Menntaskólann á Egilsstöðum. Á þeim árum tók hann meðal annars þátt í uppsetningu Leikfélags Fljótsdalshéraðs á Dagbók Önnu Frank og þróun íslenska spunaspilsins Asks Yggdrasils. Hann er ekki sá eini úr þeim hópi sem síðar hefur unnið innan tölvuleikjageirans. Alti var í átta ár forstöðumaður hjá íslenska tölvuleikafyrirtækinu CCP Games sem þekktast er fyrir leikinn Eve online.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.