Orkumálinn 2024

Fuglaflóran ein af perlum Norðausturlands

„Það er mikil fuglaflóra hér í Vopnafirði og segja má að ein af perlum Norðausturlands sé þetta fjölbreytta fuglalíf og þá sérstaklega fjöldinn í hverjum stofni,“ segir Berghildur Fanney Hauksdóttir, ferðamálafulltrúi Vopnafjarðar.

Ferðamálasamtök Vopnafjarðar og Vopnafjarðarhreppur eru þátttakendur í verkefninu Fuglastígur á Norðausturlandi. Fuglastígur er samstarfsvettvangur ferðaþjónustuaðila og áhugafólks um uppbyggingu fuglaskoðunar í Þingeyjarsýslum og hefur þann tilgang að stuðla að og þróa uppbyggingu á fuglatengdri ferðaþjónustu á Norðausturlandi.

Fanney segir að upphaflega hafi Ferðamálasamtök Vopnafjarðar skoðað möguleika á því að koma upp fuglaskoðunarhúsi af einhverju tagi í sveitarfélaginu. „Við leituðum styrkja en strönduðum alltaf á því hversu lítt fuglalífið er rannsakað hér í Vopnafirði. Við fórum af stað og kynntum okkur sambærilega hluti sem verið er að gera bæði á Djúpavogi og Borgarfirði eystri. Þar fundum við ekki þetta þétta samstarf og er á Húsavík, milli þeirra sem vilja gera út á fuglaskoðun í ferðaþjónustu og fyrir íbúa. Við buðum stjórn Fuglastígins að kynna sitt starf hér á Vopnafirði því við erum í raun hluti af þeim hring sem þau vinna með, hvort sem við teljumst til Austurlands eða Norðurlands,“ segir Fanney.

Húsin hönnuð af norskum arkitekt
Fanney situr í stjórn Fuglastígsins. „Strax var ákveðið að verkefnið yrði unnið faglega, því þó svo að fuglaskoðun þekkist vart á Íslandi þá er þetta gríðarlega stór markaður erlendis, það er fullt af fólki sem beinlínis ferðast um heiminn til þess eins að skoða fugla og til þess að höfða til þessara aðila verður að vanda til verka. Við fengum til liðs við okkur norskan arkitekt hjá Biotobe sem starfar í Vardö í Norður-Noregi og sérhæfir sig í hönnun fuglahúsa. Hann dvaldi hér hjá okkur síðastliðið sumar og vann skýrslu um það hvernig best væri að standa að þessum málum. Það eru þrír staðir sem hann telur mjög vænlega á Vopnafirði fyrir fuglaskoðunarhús, þar á meðal Skipshólmi.

Fuglastígurinn fékk svo góðan styrk úr Framkvæmdasjóði Ferðamannastaða til þess að halda áfram með verkefnið sem fer í áframhaldandi hönnun húsanna en það eru átta til níu staðir á Norðausturlandi þar sem við viljum fá hús. Þá myndast heildstæður hringur með sama yfirbragði hönnuðarins. Ferðamálasamtök Vopnafjarðar fengu nú í vor góða gjöf frá einstaklingi hér í Vopnafirði, fuglaskoðunarhús sem fyrirhugað er að finna stað við Lónin.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.