Orkumálinn 2024

Fresta afgreiðslu um nýtingu æðarvarps

Afgreiðslu á nýtingarrétti æðarvarps á jörðinni Búlandsborgum í Norðfirði á var frestað á fundi bæjarráðs Fjarðabyggðar þar sem bæjarfulltrúarnir tveir sem sátu þá á fundinum voru ósammála. Fulltrúi Fjarðalistans telur ágalla hafa verið á auglýsingunni.


Ellefu sóttu um nýtingarréttinn þegar hann var boðinn út í sumar. Bæjarráð fór yfir boðin og fól bæjarstjóra að ganga til viðræðna og samninga við þá sem buðu hæst á síðasta fundi sínum í júlí.

Ekki var hins vegar auðvelt að bera tilboðin saman þar sem þau voru ýmist upp á fasta upphæð á ári eða hlutfall af tekjum.

Í bókun fulltrúa Fjarðalistans frá því á mánudag er vísað í mat lögfræðings sveitarfélagsins um að tilboðin hafi ekki verið samanburðarhæf því auglýsing hafi ekki verið nógu skýr.

Fulltrúinn, Esther Ösp Gunnarsdóttir, lagði því til að öllum tilboðunum yrði hafnað og auglýst á ný. Þá yrði skýrt kveðið á um hvað skyldi felast í tilboðinu, hvort hvort leigutaki beri alla fjárhagslega ábyrgð á rekstri æðavarpsins sjálfur eða í hlutfalli við sveitarfélagið og hvort um hlutfall af tekjum eða fasta krónutölu leiguverðs á ári sé að ræða.

Fulltrúi Framsóknarflokksins vanhæfur vegna skyldleika

Fyrir fundinum lá tillaga um að samið yrði við Guðröð Hákonarson, en hann og Sigurður Rúnar Ragnarsson háttu hæstu boðin í krónutölum, 1,5 milljón króna á ári. Í fundargerð segir að tillagan sé lögð fram að höfðu samráði við lögmann bæjarins.

Guðröður er bróðir Jóns Björns Hákonarsonar, fulltrúa Framsóknarflokksins í bæjarráði, sem sat fyrri hluta fundarins á mánudag en fór af honum áður en málið var tekið fyrir.

Í bókun Jens Garðars Helgasonar, formanns bæjarráðs, segir að hann hafi ákveðið að fresta málsins til næsta bæjarráðs fundar sem fulltrúi Framsóknarflokksins muni sitja. Það geri hann í ljósi stefnubreytingar Fjarðalistans frá fyrri fundum.

Búlandsborgir er gegnt flugvellinum á Norðfirði, hinu megin við ós Norðfjarðarár. Jörðin hefur ekki verið í ábúð frá fyrri hluta 20. aldar og enginn húsakostur þar til staðar.

Þar er hins vegar töluvert æðarvarp og auglýsti Fjarðabyggð dúntekjurétt þess nýverið lausan til umsóknar. Varplandið er talið vera 7,14 hektarar að stærð. Leigurétturinn er frá 1. október 2017 til 30. september 2022.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.