Orkumálinn 2024

Framkvæmdastjóri neitar að ræða hvernig löngu útrunnið nammi endaði á Seyðisfirði

Framkvæmdastjóri heildsölufyrirtækis sem seldi rúmlega tíu ára gamalt nammi austur á Seyðisfjörð í síðustu viku neitar að útskýra hvernig málið átti sér stað. Málið er til skoðunar hjá heilbrigðiseftirliti.


„Það er búið að ræða þetta, það þarf ekki að ræða þetta neitt frekar,“ sagði Hafþór Guðmundsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar dreifingar þegar Austurfrétt bað hann um að útskýra hvernig sælgætið hefði farið í umferð.

Sama svar gaf hann hvort sem hann var beðinn um skýringar eða spurður um „hvernig þetta hefði getað gerst“ áður en hann skellti á.

Það er hins vegar ekki hans að ákveða. Heilbrigðiseftirlit Austurlands áframsendi málið til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem rannsakar málið. Þar fengust þær upplýsingar að rannsóknin væri á frumstigi en kallað yrði eftir skýringum fyrirtækisins.

Á vef Seyðisfjarðarkaupstaðar var fyrir helgi beðist afsökunar á að „löngu útrunnið“ sælgæti hefði verið gefið börnum sem komu á bæjarskrifstofuna á öskudaginn.

Þær upplýsingar fengust þar í morgun að sælgætið hefði verið pantað í gegnum póstlista frá Íslenskri dreifingu. Borist hefðu þrír pakkar af litríku og fallegu nammi.

Starfsmönnum skrifstofunnar „datt ekki í hug“ að skoða dagsetningarnar en fengu síðar ábendingu frá foreldri. Í ljós kom að sælgætið var framleitt árið 2004 og rann út árið 2007.

Þeir sögðust hafa fengið afsökunarbeiðni vegna rangrar sendingar en ekki skýringu á hvernig hún hefði farið af stað.

Haft var samband við Heilbrigðiseftirlitið sem veitti þær upplýsingar að sælgætið ætti að vera meinlaust þrátt fyrir dagsetninguna. Bæjarskrifstofunni höfðu heldur ekki borist kvartanir um að nammið hefði verið vont og svo virtist sem Seyðfirðingar litu frekar á broslegu hliðina á málinu.

 

Mynd: Skjáskot af heimasíðu Íslenskrar dreifingar.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.