Fossinn í Búðaránni hefur breytt um farveg

Fossinn í Búðará á Seyðisfirði hefur breytt um farveg, að minnsta kosti tímabundið, eftir mikla vatnavexti í gær. Aurskriða féll skammt frá gistiheimilinu Norðursíld.


„Innsta bunan er vanalega stærst en nú er það sú ysta. Í miklum rigningum fellur fossinn í þremur bunum,“ segir Aðalheiður Borgþórsdóttir sem býr í húsinu Múla á Seyðisfirði og horfir á fossinn úr eldhúsglugganum.

Íbúum við Búðarána var ráðlagt að yfirgefa heimili sín í gærkvöldi en þekkt er að hlaup komi í ána í miklum rigningum. Aðalheiður hefur búið í Múla í 33 og segist tvisvar muna eftir aurflóðum þar niður.

Hún svaf hins vegar heima hjá sér í nótt enda stendur húsið það hátt í landinu að ekki var talin hætta stafa af því. Það var byggt þar árið 1907. „Við sváfum bara róleg en ég átti ekki endilega von á því. Það voru mikil læti í steinum sem áin velti niður.“

Þau voru að heiman í gær þegar áin og fossinn voru sem ógnvænlegust. „Ég hef aldrei séð hann eins og á myndum frá í gær. Hann er enn nokkuð vígalegur en það hefur dregið nokkuð úr rigningunni.

Ég veit ekki hvort fossinn sé búinn að breyta sér til frambúðar. Svona er náttúran.“

Verulega hefur dregið úr vatnsmagninu á Seyðisfirði. Aðalheiður segir að talsvert sé af fólki á ferðinni að skoða ummerkin eftir gærkvöldið.

Bjarki Borgþórsson, eftirlitsmaður Veðurstofu ÍSlands, segir að mikið stórgrýti hafi safnast saman í árfarveginum skammt ofan við fossinn og beini honum nýja leið. „Það var mikið stórgrýti á ferðinni og það mátti heyra hvernig glumdi í því í gærkvöldi.“


Hann segir engar áhyggjur þurfa að hafa af því að haftið bresti með látum. Það beini vatninu í ákveðna stefnu. Óvíst sé hvort það sé til framtíðar. „Fossinn hefur væntanlega margbreyst í gegnum tíðina. Á gömlum myndum er hann tvöfaldur en hefur verið tvöfaldur síðustu ár.“

Efri myndin sýnir fossinn í morgun, sú neðri í gær. Myndir: Aðalheiður Borgþórsdóttir

budararfoss juni17 web

budararfoss juni17 2 web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.