Orkumálinn 2024

Forsvarmenn Hússtjórnarskólans undrandi á ráðuneytinu: Hví var þetta ekki rætt strax?

Skólameistari Húsmæðraskólans á Hallormsstað undrast skýringar Mennta- og menningarmálaráðuneytisins á því hvers vegna samningur við skólann sé ekki endurnýjaður. Þær standist ekki að fullu það sem farið hafi milli skólans og ráðuneytisins í vetur.


Skólahald var fellt niður á vorönn þar sem ekki var næg aðsókn. Í kjölfarið sagði ráðuneytið upp rekstrarsamningi viðskólann. Forsvarsmenn skólans vonuðust hins vegar eftir að hægt væri að bæta úr og auglýstu nám við skólann í haust sem lukkaðist með ágætum.

Í lok síðustu viku bárust hins vegar þær upplýsingar að samningurinn yrði ekki endurnýjaður þar sem skólinn uppfyllti ekki kröfur aðalnámskrár. Á mánudagskvöld sendi skólanefnd frá sér yfirlýsingu um að ekki yrði kennt í skólanum á haustönn.

Eiga skólastjórnendur að finna út úr hvað vantar?

Í samtölum Austurfréttar við stjórnendur skólans á þriðjudagsmorgun virtist sem þeir væru að átta sig á nákvæmlega hvaða skilyrði skólinn uppfyllti ekki. Þeir hafa síðan í desember 2015 beðið eftir staðfestingu á námsbraut skólans en ráðuneytið staðfestir námsbrautir framhaldsskóla.

„Eftir fund með ráðherra og fulltrúa hans reyndi ég að aðlaga brautina að þeim skilaboðum sem ég fékk,“ sagði Bryndís Ford, skólameistari Hússtjórnarskólans. „Við erum að bíða eftir að fá að vita hverju er ábótavant. Það er mat þeirra að hússtjórnarnámið falli ekki að aðalnámskránni.

Þeir hljóta að vita hvað það er sem veldur en mér líður eins og við eigum að finna út úr því,“ sagði Bryndís.

Hugmyndir um nýtt námsframboð ekki fullmótaðar

Seinni partinn í gær sendi ráðuneytið frá sér yfirlýsingu vegna umfjöllunar um skólann. Í henni segir að einnar annar nám samrýmist ekki viðmiðum sem sett hafi verið fram um námsbrautir í aðalnámskrá framhaldsskóla frá árinu 2011.

Forsvarsmenn skólans hafa síðan í janúar fundað tvisvar með fulltrúum ráðuneytisins. Í tilkynningu ráðuneytisins segi að skólameistari hafi seint í mars send gögn með hugmyndum um framtíðarmöguleika skólans.

„Hugmyndir um nýtt námsframboð, sem þar koma fram, eru ekki fullmótaðar og þyrfti að þróa áfram til að námsbrautalýsingarnar fullnægi skilyrðum til að fá staðfestingu ráðuneytisins.

Í þessu sambandi er rétt að geta þess að skilyrði til að námsbrautalýsingar verði samþykktar byggjast ekki síst á því að tryggja hagsmuni nemenda, t.d. að hægt sé að meta það nám, sem þeir stunda, til framhaldsskólaeininga sem gilda einnig í öðrum framhaldsskólum eða til starfsréttinda.“

Sinnti ráðuneytið skyldu sinni um leiðbeiningar?

Í námsskránni er opið fyrir námsbrautir sem ekki ljúki með stúdentsprófi, prófi til starfsréttinda eða framhaldsskólaprófi. Þær geta minnst verið 30 einingar og taka hæfniviðmið þeirra mark af kröfu ráðuneytis, starfa eða fræðasviða háskólastigsins.

Þar segir ennfremur: „Ef hæfniviðmið námsbrauta beinast hvorki að því að undirbúa nemendur undir skilgreind störf né áframhaldandi nám á háskólastigi getur skóli leitað til ráðuneytis um leiðsögn um hæfnikröfur.“

Bryndís er efins um að ráðuneytið hafi ekki sinnt þessari leiðsögn. „Að námið sé aðeins ein önn er fyrst að koma upp á borðið núna. Fulltrúar ráðuneytisins hafa verið að ræða við okkur um námsframboðið – hví var þetta ekki rætt strax?

Ég geri mér grein fyrir að það eru vandræði með að skilgreina okkur því við erum öðruvísi en er það virkilega svo að stutt, hagnýtt nám eins og hússtjórnarbrautin passi ekki inn í menntastefnu landsins?

Boltinn er hjá ráðuneytinu að opna á þennan möguleika í aðalnámskránni til að stutt, hagnýtt nám eins og brautin standi nemendum landsins til boða og sé almennt hluti af menntastefnu landsins.“

Hvað með hinn Hússtjórnarskólann?

Bryndís segist hafa upplifað Hússtjórnarskólann hornreka gagnvart ráðuneytinu að undanförnu. Í nóvember hafi verið haldinn samráðsfundur allra framhaldsskóla landsins en fulltrúa skólans hafi ekki verið boðið þangað. Honum hafi hins vegar verið boðið að sitja fund símenntunarstöðva skömmu seinna, en skólinn eigi lítið sammerkt með þeim.

Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað er annar tveggja slíkra á landinu, hinn er í Reykjavík. Hann er einnig aðeins með einnar annar nám. Austfirðingar bíða eftir hver framvinda hans verður. „Ef hann fær að fara af stað í haust þá býr eitthvað annað að baki,“ sagði Bryndís.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.