Orkumálinn 2024

Flóttafólkið þreytt eftir langt ferðalag

Þrjár fjölskyldur á flótta frá Írak komu loks til nýrra heimkynna sinna í Fjarðabyggð í gærkvöldi. Stjórnarmaður í deild Rauða krossins í Neskaupstað segir að vel hafi gengið að undirbúa komu fólksins sem safnar nú kröftum á ný eftir langt ferðalag.

„Við tókum á móti þeim og sýndum þeim það helsta, við kvöddum og þau fengu súpu og brauð sem elduð hafði verið fyrir þau,“ segir Sigurfinnur Líndal Stefánsson, stjórnarmaður í deildinni.

Þrjár fjölskyldur komu til Fjarðabyggðar í gær, ein til Reyðarfjarðar og tvær til Neskaupstaðar. Reyndar væri réttara að tala fjölskyldurnar tvær á Norðfirði sem eina stórfjölskyldu, um er að ræða afa, ömmu og svo par með þrjú börn.

Sigurfinnur segir að móttökurnar í gær hafi verið stuttar, fólk hafi verið þreytt eftir langt ferðalag. Það kom til Íslands frá Jórdaníu, þar sem það hefur dvalist í flóttamannabúðum, með millilendingu í Frankfurt. Fólkið kom svo austur í Egilsstaði með kvöldflugi og var keyrt í rútu á áfangastað.

Sem fyrr segir dvelur hluti hópsins á Reyðarfirði en afgangurinn í Neskaupstað. Sjálfboðaliðar Rauða krossins hafa að undanförnu unnið að því að undirbúa komu fólksins með að standsetja íbúðirnar.

„Mesta vinnan síðustu daga hefur verið við það. Íbúðirnar voru tómar og við höfum fyllt þær af húsbúnaði, allt frá tannburstum upp í sófasett.“

Sigurfinnur segir að vel hafi gengið að nálgast húsbúnað, sumt hafi verið keypt nýtt eða af nytjamarkaði en annað fengist gefins. Þá hafi einnig verið safnað fatnaði fyrir fjölskyldurnar. „Fólk hefur jafnvel skilið eftir föt fyrir utan íbúðirnar. Það hafa verið góð föt, meðal annars barnaföt.“

Deildir Rauða krossins hafa einnig útvegað stuðningsfjölskyldur og sjálfboðaliða til að vera flóttafólkinu innan handar meðan það aðlagast lífinu á nýjum stað. „Við erum komin með eina stuðningsfjölskyldu í Neskaupstað en erum að ræða við fleiri fjölskyldur og sjálfboðaliða. Þetta hefur borið brátt að en það hefur vel tekist til þótt ég segi sjálfur frá.“

Aðalábyrgðin á móttökunni hvílir hins vegar á Fjarðabyggð sem aftur vinnur með velferðarráðuneytinu.

Frá komu flóttafólksins til landsins í gær. Mynd: Rauði kross Íslands

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.