Flokkarnir velja framboðsleiðir: Píratar ríða á vaðið

Píratar verða að byrja að stilla upp framboðslista í Norðausturkjördæmi en prófkjör flokksins hefst um helgina. Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin velja aðferð við val á listum um helgina. Líklegast er að flestir flokkar stilli upp vegna tímahraks.


Frestur til að bjóða sig fram í prófkjöri pírata í kjördæminu rennur út klukkan 15:00 á morgun. Prófkjörið hefst á vef flokksins klukkan 19:00 sama dag og stendur í viku. Prófkjörið er lokað þannig að aðeins þeir sem skráð höfðu sig í flokkinn í kjördæminu fyrir 24. ágúst hafa atkvæðisrétt

Að kjöri loknu tekur við staðfesting á listanum, hvort frambjóðendur taki sæti. Þegar sætin hafa verið staðfest skipar kjördæmisráð í tóm sæti.

Á elleftatímanum í morgun höfðu tíu gefið kost á sér í prófkjörinu en 20 þarf til að fullmanna listann. Sævar Þór Halldórsson, landvörður á Teigarhorni og Sigríður Lára Sigurjónsdóttir bókaútgefandi á Egilsstöðum eru þau einu sem búa á Austurlandi sem hafa gefið kost á sér en þær Guðrún Ágústa Þórdísardóttir og Urður Snædal bjuggu lengi í fjórðungnum. Þingmaðurinn Einar Brynjólfsson hefur lýst yfir framboði sínu.


Ekki tími í annað en uppstillingu

Framsóknarmenn í kjördæminu hittast á auka kjördæmisþingi í félagsheimilinu Breiðumýri á Laugum á sunnudag. Þar mun stjórn kjördæmisráðsins leggja fram tillögu um aðferð við val á listanum. Í samtali við Austurfrétt sagði Eygló Björk Jóhannsdóttir, starfandi formaður ráðsins, að ekkert yrði látið uppi um tillögu ráðsins fyrr en á sunnudag.

Sama dag fundar kjördæmisráð Samfylkingarinnar á Akureyri. Samkvæmt fundarboði er tillaga að skipan uppstillingarnefndar á dagskrá.

Sama aðferð var viðhöfð við valið fyrir síðustu kosningar. Jóhann Jónsson, sem tók nýverið við sem formaður kjördæmisráðs, segir ekki tíma til annars.

„Við stefnum að því samþykkja listann um mánaðarmót. Samkvæmt lögum Samfylkingarinnar þarf flokksstjórnarfundur að samþykkja framboðslistana og hann verður haldinn 6. október. Þann 13. október þarf að vera búið að skila inn listum með meðmælendum og öllu.“

Svipaða sögu er að segja af Sjálfstæðisflokknum. Kjördæmisráðið þar fundar 1. október og segir Kristinn Frímann Árnason, formaður ráðsins að stjórn muni leggja til uppstillingu.

Sama dag verður kjördæmisþing Vinstri grænna á Fosshóteli í Mývatnssveit. Edward Hyuibens, formaður kjördæmisráðs sem í vikunni lýsti yfir framboði sínu til varformanns hreyfingarinnar, segir að þar verði tekin ákvörðun um málið og skipuð kosningastjórn sem fylgi málinu eftir. Líklegast sé að uppstilling verði fyrir valinu.

Dögun leitar samstarfs við aðra flokka

Hjá Viðreisn fengust þær upplýsingar að uppstillinganefndir starfi í öllum kjördæmum og muni skila af sér í byrjun október.

Stjórn Bjartrar framtíðar skipaði uppstillinganefnd sem setur saman listana á fundi sínum í gærkvöldi. Nefndin tekur strax til stara og vonast er til að framboðslistar liggi fyrir mjög fljótlega.

Hjá Flokki fólksins fengust þær upplýsingar að Inga Sæland, formaður, væri stödd í Norðausturkjördæmi í dag til að vinna að framboðsmálum.

Dögun bauð fram í kjördæminu í fyrra. Sigurður Eiríksson, sem leiddi listann þá, segir ekki ljóst hvort hreyfigin stilli upp lista í kjördæminu. Ákveðið hafi verið að byrja á að leita eftir samstarfi við aðra flokka. Þau mál skýrist væntanlega um helgina.

Þorsteinn Bergsson, sem var í fyrsta sæti Alþýðufylkingarinnar fyrri ári, telur líklegt að hreyfingin bjóði fram lítt breyttan lista í kjördæminu. „Þau sem störfuðu að framboðinu síðast eru í startholunum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.