Flóð í Hlíðarendaá

Verktakar hafa verið að moka upp úr Hlíðarendaá á Eskifirði eftir að hlaup kom í ánna seinni partinn í dag. Úrhellisrigning hefur verið á Austurlandi frá miðnætti.


„Það kom flóð í ána og með því mikill framburður þannig að áin stíflaðist við nýju brúna,“ segir Sigurður Jóhannes Jónsson, forstöðumaður framkvæmda- og þjónustumiðstöðvar Fjarðabyggðar.

Haft var samband við verktaka í nágreninu og komu tæki frá Suðurverki, sem vinnur við Norðfjarðargöng og Myllunni sem gerir ofanflóðavarnir í Ljósá, næstu á fyrir innan.

„Það brugðust allir mjög fljótt við og við erum með stjórn á ástandinu.“

Sigurður segir að smá hætta hafi steðjað að húsi neðan við brúna en fyrst og fremst hafi þurft að moka upp úr ánni til að hún rynni ekki framhjá brúnni. Áætlað er að 2000 rúmmetrum af möl hafi verið mokað upp.

Lokið var við að byggja varnarvegg meðfram ánni til að hafa stjórn á flóðum í henni fyrir ári. „Þessi mannvirki hafa sannað gildi sitt.“

Úrkoma á Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Norðfirði og Seyðisfirði er komin upp í 100 mm frá því á miðnætti. „Það dró aðeins úr áðan en er núna að bæta í aftur.“

Sigurður segir hlaup hafa komið í Skjónulæk á Norðfirði eins og sé algengt í miklum rigningum. „Við vitum ekki af neinu frekar en allir lækir og ræsi flytja eins og þau bera.“

Myndir: Kristinn Þór Jónasson

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar