Orkumálinn 2024

Fljótsdalshérað: Meirihlutinn klofnaði og tillaga um sameiningu tónskóla felld

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs felldi á fundi sínum í gær tillögu um sameiningu Tónlistarskólanna á Egilsstöðum og í Fellabæ undir einum hatti Tónlistarskóla Fljótsdalshéraðs. Fulltrúar Á-lista, sem mynda meirihluta með Sjálfstæðisflokki og Héraðslista, greiddu atkvæði gegn tillögunni ásamt minnihluta framsóknarmanna.


Samkvæmt tillögunni átti sameiningin að taka gildi frá og með næsta skólaári. Gert var ráð fyrir að starfsstöðvar yrðu áfram tvær. Tillagan var felld í fræðslunefnd á sama hátt en samt borin upp í gær.

Tillagan á rætur sínar í úttekt Skólamiðstöðvar Háskólans á Akureyri um skólamál á Fljótsdalshéraði en þar var sameining tónskólanna talin fýsileg. Bæjarfulltrúar D og L lista vísuðu í skýrsluna í sinni bókun.

Þeir telja að jákvæð áhrif verði bæði félagsleg og fagleg þar sem nemendur geti spilað með stærri hóp samnemenda í fjölbreyttari verkefnum.

Í dag starfa 10 starfsmenn í skólunum, þar af tveir skólastjórar. Í bókun D og L lista er því haldið fram að margvísleg hagræðing náist með sameiningunni. Með breytingum á stjórnunarhlutfalli sparist 1,2-6,3 milljónir króna á ári. Það sé fyrir utan alla hagræðingu með sameiginlegum innkaupum, notkun tækja og hljóðfæra og fleiru. Boðleiðum fækki og tónlistarnám í sveitarfélaginu verði „allt skilvirkara.“

Ekki sannanir fyrir ávinningi

Í bókun B-lista er lýst yfir vonbrigðum með skýrsluna og sagt að hún sé „alls ekki“ nægjanlegur grunnur til ákvarðanatöku þótt hún geti verið upphaf umræðu um einstök atriði.

Þeir benda á að auk skýrslunnar liggi fyrir „svonefnd greinargerð“ fulltrúa D og L lista í fræðslunefnd. „Það er okkar mat að því fari fjarri að það sem þar kemur fram geti talist óyggjandi og teljum við að þeir þættir sem þar eru nefndir, og málið í heild, þarfnist mun meiri umræðu og undirbúnings ef vel á að fara.“

Að þeirra mati sé ekki nógu skýrt að breytingin skili tilætluðum ávinningi, hvorki fjárhagslegum né faglegum. Að auki er gagnrýnt að alltof skammur fyrirvari sé á grundvallarbreytingu á rekstri skólanna, mörgum spurningum sé ósvarað um starfamannamál og kostnað af sameiningunni, svo sem við biðlaun.

Ekki boðlegar vangaveltur um skerta stjórnun

Í bókun Á-lista er einnig lýst efasemdum um fjárhagslegan og faglegan ávinning. Bent er á að í skýrslunni komi almenn ánægja með starf tónlistarskólanna. Sérstaklega er gagnrýndar fullyrðingar um ávinning um skerta stjórnun.

„Vangaveltur um að ætla nýjum tónlistarskóla skerta stjórnum miðað við kjarasamninga tónlistarskólastjóra eru að okkar mati ekki boðlegar í ákvarðanatöku á sveitarstjórnarstigi.“

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Héraðslista höfnuðu fullyrðingum um að ekki væri sýnt fram á fjárhagslegan eða faglegan ávinning með sameiningu. „Með þessu sjónamiði er ekki verið að horfa í þau tækifæri sem skapast með sameiningu tónlistarskólanna og litið framhjá þeim staðreyndum sem liggja fyrir í málinu.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.