Fjarskipti efld við Mjóafjörð

Bæjarstjóri Fjarðabyggðar er bjartsýnn á að lausn finnist á fjarskiptasambandi við Dalatanga í Mjóafirði fyrir áramót en þá rennur út samningur um gervihnattasamband við staðinn. Sambandið skiptir máli, bæði fyrir öryggi ábúenda, íbúa í nágrenninu og sjófarenda. Vonast er til að ljósleiðari til Mjóafjarðar leysi málin til lengri tíma litið.

Fjarskiptasjóður tilkynnti bæjarráði Fjarðabyggðar fyrir skemmstu að samningur um netsamband um gervihnött við Dalatanga rynni út um næstu mánaðamót. Í bréfi sjóðsins segir að hann hafi kostað þjónustuna langt umfram þann tíma sem áætlað var. Hún eigi aðeins við um staði sem ekki eigi kost á öðru netsambandi og þeim hafi fækkað ört. Ljóst sé að kostnaður við að koma á traustu örbylgjusambandi á Dalatanga sé tugir milljarðar. „Fjarskiptasjóður er ekki til umræðu um að kosta slíka framkvæmd,“ segir í erindinu.

Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, segist eftir fundi með Fjarskiptasjóði bjartsýnn á að lausn finnist í tæka tíð. Að líkindum verði komið á sambandi á annarri tíðni um gervihnött, líkt og skip nota. Áfram yrði samið við Radíómiðlun/Símann.

Ljósleiðari á leiðinni

Bæjarráð Fjarðabyggðar hafði áður mótmælt áformum Fjarskiptasjóðs þar sem þau skerði þjónustu og öryggi staðarins. Eins sé Dalatangi mikilvægur í veðurathugunum. „Við teljum að þessi mikilvæga veðurstöð, sem gefur veðurfréttir um siglingaleiðir og til snjóflóðaeftirlitsmanna, sé hluti af rekstri ríkisins. Það skiptir líka máli að staðir í mikilli einangrun hafi greið samskipti í gegnum net. Það er hluti af nútímanum,“ segir Páll Björgvin.

Hann vonast til að fjarskiptasamband í Mjóafirði og á Dalatanga eflist enn frekar þegar lagður verður ljósleiðari frá Seyðisfirði til Reyðarfjarðar um Norðfjörð og Eskifjörð. Þar með verður komin á hringtenging við Fjarðabyggð. Unnið hefur verið að lagningu leiðarans samhliða því sem línur RARIK hafa verið plægðar í jörðu á svæðinu. Angi frá þeim leiðara á síðan að liggja til Mjóafjarðar.

„Við það munu fjarskipti við Mjóafjörð batna til muna, símasamband þar hefur til dæmis verið slitrótt og Fjarskiptasjóður hefur verið mjög áhugasamur um þá framkvæmd. Gervihnattasambandið verður því aðeins til bráðabirgða og ég er bjartsýnn á að aðstæður fyrir betra samband við Dalatanga skapist fljótlega.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.