Orkumálinn 2024

Fiskikör eru ekki náttúrulegir baðstaðir

Heilbrigðiseftirlit Austurlands (HAUST) stendur fyrir átaki til að tryggja að fullnægjandi hreinsun á baðvatni. Framkvæmdastjóri segir of mörg dæmi um að baðvatn standist ekki þær kröfur sem gerðar eru til gerlafjölda.

„Það er nokkur dæmi um það í okkar umdæmi þar sem ferðaþjónustuaðilar eru að bjóða uppá baðaðstöðu í fiskikörum eða heitum pottum þar sem vatnið er óklórað.

Sé vatn ekki klórað eða með öðrum leiðum tryggt að það standist þær kröfur sem gerðar eru til baðvatns getur það haft í för með sér sýkingarhættu. Sýnatökur þar sem skoðað er heilnæmi vatnsins m.t.t. gerlafjölda standast of oft ekki þær kröfur sem gerðar eru til baðvatns.“

Þetta segir Helga Hreinsdóttir, framkvæmdastjóri HAUST í viðtali við Austurgluggann. Í síðustu ársskýrslu HAUST er skotið föstum skotum að svokölluðum náttúrulaugum sem ferðaþjónustuaðilar hafa víða komið upp.

Í skýrslunni, sem undirrituð er af Helgu og Jóni Birni Hákonarsyni, formanni heilbrigðisnefndar, segir að víða sé vatn leitt í kör, skeljar eða heita potta sem hannaðir séu til heimilisnota án þess að fullnægjandi hreinsun sé til staðar.

Talað er um „andvaraleysi og jafnvel andstöðu við að sótthreinsa með klór.“ Að ferðamenn virðist telja „að hver volg spræna henti til baða“ og íslenskir rekstraraðilar hafi smitast af þeirri trú. Ekkert sé hins vegar náttúrulegt við fiskikar.

„Menn virðast því miður hafa gleymt af hverju þarf að setja klór í baðvatn og af hverju er okkur öllum gert að þvo okkur rækilega í sturtunni áður en við förum út í sundlaugar.“

Mikið magn saurkólígerla þar sem ekki er klór

Ekki má taka í notkun nýjar sund- eða setlaugar nema þær hafi lokað hreinsikerfi og skylda er að nota klór til hreinsunar. Eina undanþágan frá þessu er að ef unnt er að sýna fram á að gegnumstreymi sé það mikið að sífellt berist hreint vatn í laugina þannig að gerlar safnist ekki fyrir. Sýnatökur HAUST sýna fram á mikið magn saurkólígerla þar sem rekstraraðilar veigra sér við að nota klór.

Einhverjir aðstandendur baðstaða hafa lagst gegn því að nota klór þar sem vænlegra sé að selja vatnið sem náttúrulegt án klórs. Heilbrigðiseftirliti er hins vegar skylt að fylgjast með starfsemi baðstaða og hefur heimilt til að grípa inn í sé aðstaðan ekki fullnægjandi. Að undanförnu hafa því verið gerðar kröfur til rekstraraðila um úrbótaáætlanir. Helga segir að almennt sé tekið vel í aðfinnslur eftirlitsins enda vilji rekstraraðilar tryggja öryggi og vellíðan gesta sinna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.