Orkumálinn 2024

Fimmtungi færri bátar á strandveiðum

Fimmtungi færri bátar stunda strandveiðar á svæði C, frá Þingeyjarsveit til Djúpavogshrepps, heldur en í fyrra. Lægra verð á fiskmörkuðum og meiri eftirspurn eftir vinnuafli í landi eru helstu skýringarnar að mati formanns Landssambands smábátasjómanna.


Í ár hafa alls 120 bátar landað á svæðinu en í fyrra hófu 148 bátar veiðar. Mismunurinn er 28 bátar eða 20%. Sömu sögu er að segja víðar af landinu. Í fyrra stunduðu 664 bátar strandveiðar á landsvísu en 582 hafa veitt í ár sem er um 13% samdráttur.

Axel Helgason, formaður Landssambands smábátasjómanna, segir skýringarnar aðallega felast í lægra verði fyrir afla og góðu atvinnuástandi í landi.

„Verðið er mjög lágt en það lá eiginlega fyrir í upphafi vertíðar. Síðan eru fleiri að átta sig á að menn hafa ekki nógu góða afkomu af veiðunum. Það er mikið af góðum störfum í boði í landi núna. Það er sama hvert maður fer og við hvern maður talar, það er alls staðar erfitt að fá Íslendinga í vinnu.“

Fiskverðið viðkvæmt

Verðið hefur hækkað. Í byrjun síðustu viku var meðalverðið á óslægðum þorski 237 kr/kg, 59 kr. hærra en viku fyrr. Axel segir enga eina skýringu á því hvers vegna fiskverð hafi verið lágt en bendir á að hækkunin kunni að skýrast af minna framboði eftir að lokað var fyrir veiðar á afkastamesta strandveiðasvæðinu. Það geti breyst snarlega aftur. Línubátar sæti færis að fara af stað þegar verðið hækki og afli frá þeim geti aukið framboðið og þar með lækkað verðið á ný.
Þá sé meira um að fiskvinnslur loki einfaldlega yfir sumarmánuðina. „Þær reyna ekki að manna sig með afleysingafólki því það fæst ekki. Þar með minnkar eftirspurnin á fiskmörkuðunum.“

Vilja breyta kerfinu

Austurglugginn/Austurfrétt hefur einnig spurnir af því að eldri veiðimenn treysti sér ekki lengur til veiða í því kerfi sem nú er og nýir sjái ekki hag í að kaupa sig inn í það. Landssambandið hefur til umræðu að reglunum verði breytt og veiðimönnum gefnir fastir dagar til róðra í stað þess að þeir þurfi að keppast um að komast sem fyrst á miðin áður en kvótinn sé uppurinn. Axel segir yfirvöld hafa sýnt þeim tillögum lítinn áhuga.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.