Ferðamenn kaupa máltíðir til að deila

„Það tala allir ferðamennirnir um hátt verðlag og það finna allir fyrir þessu, líka stærri hótelin,“ segir Gísli Arnar Gíslason, annar eigandi Hótel Tanga á Vopnafirði, um stöðu krónunnar.



Gísli og kona hans, Árný Birna Vatnsdal hótelstýra, eru eigendur Hótel Tanga á sem og Ollasjoppu, eða N1 stöðvarinnar á staðnum. Þau hafa rekið sjoppuna í fimm ár en hótelið í þrjú.

Hjónin hafa farið í gagngerar endurbætur á hótelinu en þar er í dag gistirými fyrir 37 manns í einni stúdíóíbúð og 17 herbergjum, sem fjögur eru með baði og 13 þeirra hafa aðgang að sameiginlegri baðaðstöðu.

Tíu manns deildu einum kaffibolla og barnaís
Árný og Gísli segjast finna tilfinnanlega fyrir styrkingu krónunnar. „Í fyrrasumar sáum við aukningu á því að fólk kæmi og gisti kannski tvær, upp í þrjár nætur og ferðaðist út frá staðnum. Í sumar gista gestir undantekningarlítið aðeins eina nótt. Við höfum ekki verið að lenda í afboðunum, það mæta allir sem bóka, en stoppa aðeins eina nótt,“ segir Gísli.

Árný segir að ferðamenn eyði einnig sjáanlega minna í mat og drykk. „Fólk er að passa peningana sína, það er auðsjáanlegt og kaupa gjarnan máltíð til að deila. Ýktasta dæmið í sumar er þegar hjá okkur stoppuðu tveir bílar með samtals tíu manns í sjoppunni. Þau keyptu einn kaffibolla og einn lítinn barnaís og borðuðu öll saman.“

Gísli bætir við. „Við auglýstum um tíma frítt internet í sjoppunni og þá komu ferðamennirnir gjarnan á „Happy Campus-bílum“ og keypti sér einn kaffibolla um miðjan dag og tengdi sig við netið í símanum. Eftir lokun á kvöldin lögðu þeir bílunum alveg við gluggana og fóru á netið. Þeir sömu komu svo inn þegar við opnuðum á morgnana með snyrtitösku og handklæði til þess að nota snyrtinguna, bara eins og þeir hefðu keypt sér gistingu á hóteli.

Sölumennirnir sem koma til okkar hálfsmánaðarlega frá Akureyri segja einnig að snemma á morgnana séu öll útskot á þjóðvegunum þétt setin, það séu sex til sjö bílar í hverju slíku – ekkert endilega þessir Happy-campers bílar, heldur er fólk að sofa í smábílum.“

Hótelið og sjoppan ganga vel saman
Árný og Gísli segja að reksturinn á hótelinu og sjoppunni fari vel saman. „Við erum heppin að vera með sjoppuna með þessu, ég er ekki viss um að hótelið eitt og sér myndi fleyta okkur áfram yfir rólegasta tímann í svona litlu byggðarlagi. Við erum afar heppin með starfsfólk, allt er á hægri uppleið og við stefnum á frekari endurbætur og svo veit enginn hvað gerist í framhaldinu. Ferðamennska dettur alveg niður hér á Vopnafirði yfir vetrartímann en það sem bjargar okkur er gott samstarf við HB Granda og síðasta vetur var meira og minna fullbókað hótelið hjá okkur frá hausti og fram að jólum vegna framkvæmda við bolfiskvinnslu á þeirra vegum,“ segir Gísli.

Árný tekur undir. „Þetta gefur okkur frjálsræði, við hittumst mikið af allskonar fólki og það er enginn dagur eins. Mér finnst þetta skemmtilegt en ég er líka alveg ákveðin í því að þegar ég er orðin þreytt á þessu þá hætti ég, maður verður bara að gera það sem veitir manni ánægju í lífinu hverju sinni.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.