Orkumálinn 2024

„Ferðaþjónustan er komin á afturfæturna“

„Þetta er strax farið að bíta okkur fast hér fyrir austan, þó svo að þeir fyrir sunnan finni lítið sem ekkert ennþá. Það verður svo í haust sem þetta kemur fyrst til með að hafa gífurleg áhrif,“ segir Friðrik Árnason, eigandi Hótel Bláfells á Breiðdalsvík, um boðaðrar skattahækkunar ríkisstjórnarinnar á ferðaþjónustuna.



Ferðaþjónustuaðilar á Austurlandi funduðu með fjármálaráðherra í vikunni vegna málsins og komu áhyggjum sínum á framfæri, en Bjarni Benediktsson forsætisráðherra greindi frá því á ársfundi Samtaka atvinnulífsins fyrir stuttu að stefnt sé að því að setja ferðaþjónustuna í hærra virðisaukaskattsþrep.

Öll ferðaþjónusta landsins sett undir sama hatt


Ívar Ingimarsson, framkvæmdastjóri ferðaþjónustunnar Óseyri og stjórnarmeðlimur SAF segir að ferðaþjónustuaðilar á Austurlandi séu mjög uggangi yfir hag sínum og telji margir að sín fyrirtæki muni ekki lifa ástandið af – styrking krónunnar, launahækkanair og fyrirhuguð skattahækkun sé einfaldlega of stór biti.

Ívar segir að svo virðist sem sú mikla aukning ferðamanna sem hefur átt sér stað kringum höfuðborgarsvæðið og á Suðurlandi síðustu árin og umræðan um ofsagróða sé heimfærð á alla landshluta. „Tölunar segja aftur á móti allt annað, en einungis um 27% ferðamanna sem heimsækja Íslands koma austur. Ráðherra ferðamála talaði um að ferðaþjónustan sé búin að slíta barnsskónum, en ferðaþjónustuaðilar á Austurlandi telja að hann hljóti að hafa ruglast og eigi við ferðaþjónustuna á höfuðborgarsvæðinu og næsta nágrenni, en inn á það svæði koma 98% allra ferðamanna til landsins.“

 

Austurlandið algerlga hunsað

Ívar segir að á Austurlandi sé gríðarlega mikil árstíðarsveifla og nýting gistinátta yfir vetrarmánuðina nái ekki 20% fimm til sex mánuði á ári, auk þess sem verðin lækki hlutfallslega mun meira á þeim tíma en á Suðurlandi.

„Á fundinum með ráðherra kom fram að Hótel Bláfell hafi nú þegar ákveðið að loka næsta vetur frá og með 1. nóvember. Hótel Bláfelll er stæðsti atvinnurekandi Breiðdalsvíkur og er með um 40 manns í vinnu þegar mest lætur og sex starfsmenn í heilsársvinnu. Ef þessar fyrirhuguðu uppsagnir sex heilsársstarfa yrðu heimfærðar á Akranes jafngilti þetta um 160 störfum.

Nú þegar er orðið mikið af afbóknunum og það segir sig sjálft að þegar ferðir til Íslands hækka styttist tími ferðamanna hérlendis og þeir halda sig í auknu mæli nær flugvellinum.Við þessa ákvörðun virðist sem embættismenn fjármálaráðuneytisins hafi algjörlega hunsað Austurland eða þá geri sér enga grein fyrir því að okkar vandamál eru ekki þau sömu og vandamál ferðaþjónustunnar á Suðurlandi – því okkur vantar fleiri ferðamenn,“ segir Ívar.

 

„Sumarið lítur bara illa út“

Friðrik er áhyggjufullur og segir að ríkisstjórnin verði að horfa frá fyrirhuguðum skattalækkunum ef ferðaþjónusta á landsbyggðinni á að halda velli.

„Við finnum fyrir minni bókunum og afbókunum vegna stöðu krónunnar. Sumarið lítur bara illa út – maí og júní, ég hef bara aldrei séð svona skelfilega mánuði. Samhliða þessu þykir okkur þetta útspil ríkisstjórnarinnar að ætla að hækka virðisaukaskattinn á ferðaþjónustuna afar vanhugsað skref, en þetta kemur alltaf til með að vera mikið högg fyrir landsbyggðina.“

Friðrik segir að nær væri að skattleggja valkvæða afþreyingu. „Aukning ferðamanna heldur örugglega áfram, en það sem kemur til með að gerast er að fólk styttir ferðina því allir hafa jú ákveðið fjármagn að spila úr. Það merkir að ferðamaðurinn heldur sig bara nálægt höfuðborgarsvæðinu og mesta höggið verður fyrir þá ferðaþjónustuaðila sem eru hve lengst frá borginni.

Maður veit það sjálfur að þegar útlandaferð er í kortunum skoðar maður fyrst flug og hótel en er ekket endilega að spá í hvað kostar í einhvern skemmtigarð. Við verðum að fljúga og gista, en annað er val. Okkar tillaga var því sú – fyrst á annað borð á að hækka skatta, af hverju er það þá ekki gert á afþreyinguna en láta gistinguna vera í sama flokki og matinn? Ráðherra sagðist skilja okkar afstöðu en vildi jafnframt að við skildum hann, að það vantaði fjármagn í kassann. Ég veit ekki hvort hann hreinlega áttaði sig á því að við erum bara í allt annarri stöðu hér fyrir austan. Verið er að taka mark á hagfræðingum en þeir hafa aldrei verið góðir til þess að spá til um framtíðina, þeir lesa tölur aftur í tímann og meta þær, þannig að þetta er ekki alveg nógu rökrétt.“

Neikvæður fréttaflutningur

Friðrik segir ferðaþjónustuna vera komna í baráttuhug. „Ferðaþjónustan er komin á afturfæturna og er að reyna allt sitt til þess að berjast gegn þessu og SAF er á leið í mikla herferð til þess að mótmæla þessu. Almenningur áttar sig heldur ekki á stöðunni vegna þess að fjölmiðlaumfjöllun um ferðaþjónustu hefur verið neikvæð, einu fréttirnar í tengslum við ferðaþjónustu er þegar ferðamaður kúkar bak við skúr eða þá að ferðaþjónustuaðilar séu að græða á tá og fingri. Sannleikurinn er hins vegar sá að það er enginn ferðaþjónustuaðili út á landi að græða á tán og fingri, ferkar að lepja dauðann úr skel og skrimta. Greinin er gríðarlega skuldsett og öll þessi hótel sem verið er að byggja eru veðsett upp í rjáfur og það má ekkert út af bregða þá veðrur bara annað hrun.“

Eins og fram kom í máli Ívars sér Friðrik ekkert annað í stöðunni en að hafa hótelið lokað í vetur. „Ég er búin að bíða í öll þessi ár að þetta sé nú að koma, þar sem hefur verið svo mikil aukning á suðurströndinni. Þetta er bara ekkert að koma, þó svo að prósentuaukningin sé mikil þá eru þetta bara svo fáir hausar. Hjá mér snýst þetta ekki bara um að það sé ekki bókað á hótelið, heldur störf og atvinnuleysi, þetta er bara ein stór keðjuverkun.“

Ljósmynd: Sigurður Már Davíðsson. 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.