Orkumálinn 2024

Fengu innan við hálftíma til að taka á móti föstum flugfarþegum

Hótel Hallormsstaður var opnað til að taka á móti 75 farþegum úr vél Primera-flugfélagsins sem var á Egilsstöðum í nótt vegna veðurs. Skammur tími var til stefnu til að taka á móti fólkinu.


„Hótelið er lokað á veturna og rúturnar voru nánast lagðar af stað til okkar þegar hringt var í okkur,“ segir Sigrún Jóhanna Þráinsdóttir hjá 701 Hotels sem rekur hótelið á Hallormsstað.

Að sögn hennar er alltaf skilið við hótelið þannig að hægt sé að opna það með skömmum fyrirvara ef á þarf að halda, líkt og í gærkvöldi. „Það er fólk upp frá sem fylgist með því að húsið sé í standi.“

Vél Primera var að koma frá Tenerife og átti að lenda í Keflavík klukkan 20:20 í gærkvöldi. Þar var hins vegar bálhvasst og eftir að hafa hringsólað yfir vellinum var ákveðið að halda austur. Þar lenti vélin undir miðnætti.

Um borð voru 190 farþegar sem komið var fyrir á Egilsstöðum og Hallormsstað. Vélin fór síðan frá Egilsstöðum upp úr hádeginu og lenti rúmlega tvö í Keflavík.

Þetta er ekki í fyrsta sinn í mánuðinum sem starfsmenn 701 Hotels þurfa að hafa snarar hendur. Fyrir tveimur vikum var tekið á móti 250 farþegum úr Norrænu sem voru fastir á Héraði í kaffi í Valaskjálf. Fyrirvarinn þá var 50 mínútur.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.