„Erfiðasti uppgröftur sem ég hef komið að“

„Það hefur verið kalt og meira og minna grenjandi rigning, en þetta er erfiðasti uppgröftur sem ég hef komið að á mínum 40 ára ferli en einnig einn sá mest spennandi,“ segir Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur sem stýrir uppgreftrinum á Stöð.



Er þetta annað sumarið sem unnið er að uppgreftri við Stöð. „Við erum að komast á lokapunkt þetta sumarið. Tíminn hefur farið í að kanna afstöðu tveggja skála sem liggja hvor ofan á öðrum, eldri skálinn er undir og er aldursgreindur frá fyrri hluta 9 aldar. Svo hefur einhver tími liðið og aðrir hafa komið og byggt annan skála ofan á hann sem vel getur verið hinn eiginlegi landnámsskáli. Sá skáli er gríðarstór, allt að 25 metrar auk þess að vera mjög breiður. Þar sem hann liggur ofan á gamla skálanum gæti hann hafa skemmt hann eitthvað, í það minnsta gafla hans. Við telum hann vera byggðan eitthvað fyrir 934 og hafi farið í brúk eftir það en svo endanlega yfirgefinn og bæjarstæðið flutt, hugsanlega þangað sem bærinn Stöð stendur í dag.“

Bjarni segir að einnig sé búið að staðfesta tvö lítil vinnushús á sama svæði auk þess sem grunsemdir séu um fleiri smáhýsi. Enn liggur ekki fyrir hvort húsið tilheyra eldri skálanum eða þeim yngri

„Auk þessa höfum við fundið talsvert af skemmtilegum gripum á borð við perlur, sauðaklippur, eyrnakola (ljósfæri) en aðeins ein slík er til hérlendis. Fjölmörg brýni hafa fundist, einnig flögur og kjarnar úr jaspis, glerhalla og tinnum, en það eru afgangar af verkfærasmíði þannig að þessir menn virðast hafa kunnað að búa til skerandi eða skrapandi áhöld. Sú uppgötvun er tiltölulega ný hérlendis og verður rannsökuð nánar.“

Veðráttan seinkar ferlinu
Bjarni segir veðráttuna ekki hafa verið hliðholla þann mánuð sem flokkurinn hefur verið að störfum í sumar. „Þetta hefur seinkað öllu ferlinu og við höfum ekki getað grafið eins mikið og við vildum. Við ljúkum þessari törn í næstu viku og reynum að komast yfir eins mikið og við mögulega getum, gólfið í skálanum virðist mjög gjöfult. Við höldum svo áfram að ári og eins lengi og fjármagn fæst og fólk nennir að hafa okkur.“

Bjarni segir að grafa þurfi annan efri skálann í burtu til þess að komast að þeim eldri. „Ef þetta gengur svona hægt þá verð ég hér einn mánuð á ári næstu fimmtán árin. Þá verð ég orðinn svo hundgamall þannig að það þarf að finna einhverja leið að því að fjármagna þetta, því fundurinn er mjög merkur.“

Heimamenn færa kökur og bakkelsi
Bjarni segir ekkert lát á elskulegheitum heimamanna. „Þetta er með hreinum ólíkindum, við fáum kökur og annað bakkelsi nær daglega enda eru allir komnir í yfirvigt. Það er samt alveg ótrúlegt hve miklu þessi velvild bjargar í erfiðum aðstæðum.“

Uppgröfurinn í stöð2

Perla frá landnámsöld

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.