Enn verið að finna flöt á samlegð SSA og Austurbrúar

Staða verkefnisstjóra sveitarstjórnamála á Austurlandi er laus eftir að verkefnastjórinn hætti í sumar. Formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) viðurkennir að enn séu árekstrar í verkefnaskiptingu og Austurbrúar.


Verkefnastjórinn hefur fram að þessu haft tvo yfirmenn. Annars vegar er staðan hýst hjá Austurbrú og hefur framkvæmdastjóri stofnunarinnar starfsmannalega umsjón með verkefnastjóranum. SSA kaupir hins vegar verkefnastjórnina af Austurbrú og felur starfsmanninum verkefni.

Staðan var áður sjálfstæð en var færð undir Austurbrú við tilurð stofnunarinnar fyrir fimm árum. Þetta samspil reyndist flókið og var meðal þess sem tekið var til ítarlegrar skoðunar við endurskipulagningu Austurbrúar haustið 2014.

Síðan hefur Björg Björnsdóttir gegnt stöðunni en hún sagði upp störfum áður en hún fór í frí í lok júní. Í samtali við Austurfrétt að ekki væri von á Björgu aftur til starfa en hún átti inni umtalsvert ótekið orlof.

Aðspurð um ástæður uppsagnarinnar viðurkennir Sigrún að árekstrar hafi orðið milli SSA og Austurbrúar. „Það er enn verið að finna flöt á samlegð starfsemi SSA og Austurbrúar, hvernig hægt er að hafa starfssvið hvers starfsmanns sem skírast, hvernig sá strúktúr komi best út.

Það er ekki enn alveg sami skilningur á hvernig verkefni SSA annars vegar og Austurbrúar eru rekin saman.“

Á fundi í byrjun júlí fól stjórn SSA Sigrúnu að sinna daglegum verkefnum í samráði við framkvæmdastjóra Austurbrúar þar til nýr starfsmaður hefur verið ráðinn. Við sama tilefni eru bókaðar þakkir til Bjargar fyrir vel unnin störf.

Þá er bókað að ítarlega hafi verið rætt um málefni SSA og Austurbrúar og farið yfir samþykktir og samninga. Framkvæmdaráð SSA á að hittast á morgun til að fara yfir stöðu mála.

Í samtali við Austurfrétt í dag sagðist Sigrún reikna með að SSA kaupi áfram þjónustu verkefnastjóra sveitastjórnarmála af Austurbrú og staðan verði auglýst innan tíðar.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.