Endaði á húsvegg eftir ofsaakstur á Seyðisfirði

Slökkvilið var kallað til vegna eldhættu eftir að ökumaður sem ók á ofsahraða í gegnum Seyðisfjörð endaði för sína á húsvegg í miðbænum á miðvikudagskvöld. Enginn slasaðist í atganginum.


Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var ökuferðin stutt en áður en bifreiðin endaði á húsinu lenti hún utan í ljósastaur auk þess að aka niður stórt umferðarskilti.

Talsverður bensínleki var úr bílnum og var hann því kaffærður í froðu því nálæg hús hefðu getað verið í hættu hefði verið óvarlega farið með eld í nágrenninu.

Atvikið átti sér stað á ellefta tímanum á miðvikudagskvöld. Ökumaðurinn var handtekinn og skýrsla tekin af honum daginn eftir. Talsvert af vitnum var að akstrinum og eins eru til myndbönd af ferðinni sem lögreglan skoðar.

Þá höfðu tollverðir á Seyðisfirði afskipti af manni sem ætlaði úr landi með Norrænu á fimmtudagsmorgun með tug eggja í fórum sínum. Búið var að blása úr eggjunum svo ljóst er að nokkur tími er síðan þeim var safnað.

Tollayfirvöld eru með málið til rannsóknar en meðal annars þarf að greina frá hvaða fuglum eggin koma.

Þá varð umferðaróhapp á Fjarðarheiði á fimmtudagskvöld þegar bíll fór út af með fjórum um borð. Engin slys urðu á fólki.

Mynd frá Brunavörnum á Austurlandi.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.