Orkumálinn 2024

Ekkert menningarhús í fjármálaáætlun: Ritaði ekki undir þá viljayfirlýsingu

Fjármunir í fyrirhugað menningarhús á Egilsstöðum eru hvergi sjáanlegir í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem lögð var á ný fyrir Alþingi á föstudag. Menntamálaráðherra segir framkvæmdafé skorta til fjölda verkefna á menningarsviði.


Illugi Gunnarsson, þáverandi menntamálaráðherra, undirritaði viljayfirlýsingu um verkið í skynditúr austur í Egilsstaði tveimur vikum fyrir kosningar í október. Annars vegar átti að klára aðstöðu í Sláturhúsinu, hins vegar reisa nýja burst við Safnahúsið.

Viljayfirlýsingin var samþykkti á fundi ríkisstjórnarinnar skömmu áður en með henni átti að efna tæplega 20 ára gamalt loforð um að nota fjármuni sem fengust við einkavæðingu símans til byggingar menningarhúsa á landsbyggðinni.

Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 480 milljónir, þar af átti ríkið að leggja fram 288 milljónir og skyldu fjármunir teknir frá við gerð fjárlaga fyrir árið 2018.

En í fimm ára fjármálaáætlun ríkisins, sem lögð var fram til annarrar umræðu á Alþingi á föstudag, er ekkert um menningarhúsið.

„Það er rétt að ekki er gert ráð fyrir því eins og fleiri verkefnum á sviði menningarmála. Fjárfestingasvigrúmið er ekki nógu mikið til að rúma þau áform sem gerð voru en ég legg áherslu á að þetta er áætlun sem tekin er upp á hverju ári,“ segir Kristján Þór Júlíusson, núverandi menntamálaráðherra og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.

Er viljayfirlýsingin þá marklaus?
„Ég vil ekki meina að hún sé marklaus en eins og áætlunin gerir ráð fyrir þá verður hún ekki uppfyllt á næstunni. Það sama gildir raunar um fleiri verkefni.

Alþingi samþykkti samhljóða ályktun sem formenn allra stjórnmálaflokka fluttu um Náttúruminjasafn Íslands. Þegar kemur að gerð fjármálaáætlunar eru öll þessi mannanna verk undir sama hatti.

Svigrúm til fjárfestina rúmar ekki öll þess verkefni sem við hefðum viljað koma til framkvæmda sem fyrst. Stærsta skerfinn af því á mínu málefnasviði tekur Hús íslenskra fræða.“

Var þetta ekki fyrirséð í haust?
„Ég skal ekki segja til um það. Ég ritaði ekki undir þessa vilja yfirlýsingu. Ég hefði gjarnan viljað að þetta gengi eftir og styð verkefnið heilshugar.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.