Efnahagur skilur á milli þeirra sem geta sótt sér sálfræðiþjónustu

Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) auglýsti nýverið eftir tveimur sálfræðingum til starfa. Enginn sálfræðingur hefur verið fastráðinn hjá stofnuninni frá haustinu 2015 þar sem ekki hefur tekist að ráða í stöðurnar. Forstjóri HSA segir verst að sumir treysti sér ekki til að nýta þá sálfræðiþjónustu sem þó er í boði í fjórðungnum vegna kostnaðar.


„Hvorki auglýsingar né annað hefur skilað sálfræðingi til starfa innan HSA. Auglýsingar eru aftur úti núna en frestur er ekki útrunninn og því ekki ljóst hverju það skilar,“ segir Guðjón Hauksson, forstjóri HSA, í svari við fyrirspurn Austurgluggans/Austurfréttar.

Sálfræðiþjónusta á Austurlandi er með þeim hætti að sjálfstætt starfandi sálfræðingur er í Neskaupstað og tveir sjálfstætt starfandi sálfræðingar koma hvor um sig mánaðarlega úr Reykjavík 2-3 daga í senn og hafa aðstöðu á heilsugæslustöðinni á Egilsstöðum.

Treysta sér ekki í þjónustu sem ekki er niðurgreidd

Guðjón segir að engir biðlistar séu skráðir eftir sálfræðiþjónustu hjá HSA en álag aukist á annað fagfólk sem finni það vel að sálfræðiþjónustu á vegum HSA skorti „mjög tilfinnanlega“.

„Kannski er verst í þeirri stöðu sú staðreynd að það er býsna algengt að fólk treystir sér ekki, af fjárhagslegum ástæðum, til að þiggja þá sálfræðiþjónustu sem í boði er á Austurlandi. Ástæðan er að hún er öll veitt af sjálfstætt starfandi aðilum og því ekki niðurgreidd og dýr miðað við opinbera heilbrigðisþjónustu. Þetta þýðir með öðrum orðum að um er að ræða ójöfnuð gagnvart möguleikum á að nýta sér sálfræðiþjónustu og þar skilur efnahagur fólks á milli,“ segir Guðjón.

Skype-samráð við fagfólk

Frá 2008 var í gangi svokallað AGB-verkefni sem fólst í stuðningi við ungmenni með geðrænan vanda á vegum HSA, félagsþjónustu sveitarfélaganna, framhaldsskólanna og fleiri aðila. Önnur staðan sem auglýst er nú er tengd því verkefni en það hefur legið niðri síðan verkefnisstjóri þess lét af störfum haustið 2015.

Síðasta haust var komið á reglulegu samráði milli fagfólks HSA og sérhæfðs fagfólks á barna- og unglingageðheilbrigðissviði, fyrst við BUGL en nú við Sjúkrahúsið á Akureyri, í gegnum Skype. Guðjón segir þetta úrræði mest nýtt af skólahjúkrunarfræðingum og læknum, í samráði við foreldra. Eftir atvikum má kalla aðra mikilvæga úr umhverfi viðkomandi barns að, svo sem kennara og starfsmenn félagsþjónustu.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.