Orkumálinn 2024

„Dúknum hefur alltaf fylgt mikill leyndardómur“

„Þetta er stór viðburður og ekki á hverjum degi sem Þjóðminjasafnið sendir gripi til sýningar út á land, hvað þá svona gamlan og merkilegan,“ segir Berghildur Fanney Hauksdóttir, safnastjóri á Bustarfelli.


Sýningin „Lausir endar – fortíð og framtíð mætast“ verður í Safnaðarheimilinu á Vonpafirði og stendur frá næstkomandi laugardegi og til sunnudagsins 27. ágúst.

Er það Vopnafjarðarhreppur og Minjasafnið á Burstarfelli í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands, Minjasafn Austurlands, norsku listakonuna Ingrid Larssen og norska fornleifafræðinginn Birgit Lund sem bjóða til sýningarinnar.

Sýningin endurspeglar vinnu þeirra Birgit Lund og Ingrid Larssen sem dvöldu á Vopnafirði síðastliðið haust og urðu heillaðar af Álfkonudúknum og sögu hans. Þar verða listaverk Ingrid til sýnis en einnig teikningar unnar af börnum á Vopnafirði, saumaðar í dúk af konum á Vopnafirði.

Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður mun opna sýninguna klukkan 13:00 en Birgit heldur fyrirlestur í Vopnafjarðarkirkju klukkan 12:00.

Dúkurinn er frá 17. öld
Álfkonudúkurinn sjálfur verður þó aðeins til sýnis um helgina, en hann er telinn vera frá miðri 17. öld og metinn sem þjóðargersemi og er varðveittur á Þjóðminjasafni Íslands.

Álfkonudúkurinn er altarisklæði sem sagt er vera verk huldufólks og einn örfárra slíkra muna í vörslu Þjóðminjasafnsins. Sú þjóðsaga fylgir klæðinu að sýslumannskona á Bustarfelli hafi í draumi verið leidd inn í stein þar sem bjuggu álfar. Þar kom hún til hjálpar fæðandi álfkonu, sem launaði fyrir sig með fínum gullofnum vef eða klæði. 

Nafn listamannsins er óþekkt, en giskað hefur verið á að klæðin séu saumaðar af konum eða körlum í Noregi sem fengust við saumaskap því hvergi eru þekkt verkstæði þar sem slík klæði voru unnin, jafnvel þótt leitað sé suður í Evrópu.

Dúkurinn er að koma heim
„Dúknum hefur alltaf fylgt mikill leyndardómur þar sem þjóðsagan segir að hann sé gjöf til sýslumannsfrúrinnar á Bustarfelli frá Álfkonu sem hún aðstoðaði í barnsnauð. Síðar gáfu Bustfellingar Hofskirkju dúkinn og var hann nýttur sem altarisklæði í Hofskirkju í mörg ár áður en Þjóðminjasafn Íslands fékk hann til varðveislu. Það má því segja að dúkurinn sé að „koma heim“ þrátt fyrir að um stuttan tíma sé að ræða. Flestir Vopnfirðingar þekkja þjóðsöguna um Álfkonununa og sýslumannsfrúna og hafa gengið upp að Álfkonusteini þar sem hún á að búa. Fyrir marga Vopnfirðinga er því kærkomið að fá loksins að sjá dúkinn sem fylgir sögunni,“ segir Berghildur Fanney.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.