Dæmdur til að greiða 27 milljóna sekt fyrir skattsvik

Stjórnandi austfirsks verktakafyrirtækis var nýverið dæmdur í héraðsdómi Austurlands til að greiða tæplega 27 milljóna sekt fyrir að standa ekki skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna.


Rannsókn hófst á brotunum eftir að fyrirtækið var tekið til gjaldþrotaskipta haustið 2014. Stjórnandinn var stjórnarformaður fyrirtækisins, eigandi og prókúruhafi en enginn skráður framkvæmdastjóri var í því.

Honum var gefið að sök að hafa hvorki staðið skil á virðisaukaskatti né afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna árin 2013. Upphæðin nam samanlagt tæpum 14 milljónum króna.

Stjórnandinn sagði að greiðsla opinberra gjalda hefði dregist vegna fjárhagserfiðleika fyrirtækisins en reynt að greiða inn á skuld við innheimtumann ríkissjóðs þegar betur gekk. Aðrar skuldir hefðu ekki verið látnar ganga fyrir.

Skömmu fyrir gjaldþrotaskiptin hefði tæki úr búi félagsins verið selt og andvirði þess verið ætlað til að greiða upp skattaskuldirnar. Greiðsla barst hins vegar ekki áður en félagið var úrskurðað gjaldþrota.

Stjórnandinn sagði að bókhald fyrirtækisins hefði verið í höndum fagaðila. Ekki hefði verið ákvörðun að skila ekki gögnum á tilsettum tíma.

Dómurinn áleit ekki nóg að bera fyrir sig að þjónusta hefði verið keypt annars staðar frá, ákærði bæri ábyrgð sem eini daglegi stjórnandi fyrritækisins. Hann hefði ekki lagt fram gögn um að þeir útreikningar sem fram kæmu í ákærunni væru rangir. Fullyrðingar um að vörsluskattskuldir hefðu verið greiddar stæðust ekki.

Hann væri því sekur um brotin sem fram kæmu í ákæru. Hann var dæmdur til refsingar, fjögurra mánaða skilorðsbundins fangelsis auk tæplega 27 milljóna í sekt. Hana ber að greiða innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins ellegar sæta 11 mánaða fangelsis. Maðurinn hefur ekki áður gerst sekur um refsiverð brot.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.