BYKO lokar á Reyðarfirði: Breytt landslag í verslun og þjónustu

Fimm af sex starfsmönnum BYKO á Reyðarfirði var í gær sagt upp vegna fyrirhugaðrar lokunar verslunar. Forstjóri fyrirtækisins segir ástæðuna breytt landslag í verslun og þjónustu vegna tækniframfara og aukinnar netverslunar.

„Það er alltaf vont að hætta. Þetta er erfið ákvörðun sem tók langan tíma. Menn ákveða ekki svona allt í einu. Við gerum okkur grein fyrir að þetta er áfall fyrir byggðarlagið þótt vinnustaðurinn sé ekki stór,“ segir Sigurður Pálsson, forstjóri BYKO.

Hann segir ákvörðunina tekna í ljósi breyttra aðstæðna í verslun og þjónustu samfara aukinni netverslun og tækniframförum.

„Við sjáum í auknu mæli að vefverslanir ryðja sér til rúms. Kynslóðinni sem er að vaxa úr grasi finnst fullt eins þægilegt að versla í gegnum þær. Það eru að verða miklar tækniframfarir í verslun og stundum er talað um fjórðu iðnbyltinguna,“ útskýrir Sigurður.

Gert er ráð fyrir að verslunin loki um mánaðarmótin október/nóvember en Sigurður segir að þá muni BYKO birtast Austfirðingum „með nýjum hætti.“

Jón Grétar Margeirsson, sem verið hefur verslunarstjóri frá því búðin opnaði, verður sölumaður BYKO á Austurlandi og mun einbeita sér að því að þjónusta verktaka. BYKO hefur að undanförnu endurmótað þjónustuver sitt og netverslun. „Við vonum að þetta hafi þau áhrif að við getum þjónustað Austurland með ekki síðri hætti,“ segir Sigurður.

Hann segir verslunina á Reyðarfirði ekki hafa náð rekstrarlegum markmiðum öll þau 14 ár sem hún hafi starfað.

Sigurður vonast til að verslunarhúsnæðinu verði fundið nýtt hlutverk sem hjálpi samfélaginu. Ekkert sé þar enn ákveðið. „Með þessum breytinum lækkum við fastan kostnað og gerum okkur sveigjanlegri þannig við getum framkallað betri þjónustu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.