Búið að þrífa krotið af Egilsbúð

Málarar náðu í dag að þrífa veggjakrot af félagsheimilinu Egilsbúð sem krotað var á húsið aðfaranótt þriðjudags. Ekki er ljóst hverjir voru að verki en spjöllin hafa verið kærð til lögreglu.


„Það er búið að þrífa og það náðist nokkurn vegin allt. Þetta fór betur en á horfðist í fyrstu,“ segir Guðrún Smáradóttir, starfsmaður Hljóðkerfaleigu Austurlands sem leigir húsið af Fjarðabyggð. Sveitarfélagið ræsti út iðnaðarmenn í morgun til að lagfæra skemmdirnar.

Á einum stað virðist sem spellvirkjarnir hafi kveikt eld þegar þeir voru að spreyja á húsið og brennt klæðninguna. Annars staðar sér ekki á henni.

Guðrún segir enn ekki ljóst hverjir hafi verið að verki en það er til rannsóknar hjá lögreglu. Svo virðist brotist hafi verið inn í húsið, farið í gegnum hótelhluta þess til að komast upp á þak til að spreyja. Hurð, sem á að vera læst, var galopin þar í gærmorgun.

Svona var um að litast við Egilsbúð í gærmorgun. Mynd: Guðrún Smáradóttir


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar