Búðinni lokað á Borgarfirði: Nauðsynlegt að hafa verslun til að geta kallast þorp

Engin dagvöruverslun er lengur til staðar á Borgarfirði eystra eftir að Eyrin kjörbúð lokaði í síðasta sinn á föstudag. Kaupmaðurinn segir erfitt að keppa um viðskipti ferðamanna við stórar lágvöruverðsverslanir.


„Meginástæðurnar eru minnkandi verslun ferðamanna og heimamanna því það hefur fækkað í sveitarfélaginu,“ segir Arngrímur Viðar Ásgeirsson sem, ásamt komu sinni Þórey Sigurðardóttur, tók yfir verslunarrekstur á Borgarfirði af Samkaupum haustið 2014.

Þau fluttu búðina fljótt úr gamla verslunarhúsnæðinu, sem gegnt hafði því hlutverki frá byggingu árið 1897, yfir í gamla pósthúsið sem þau áttu í gegnum ferðaþjónustufyrirtækið Álfheima. Þar var hún rekin þar til lokað var í síðasta sinn á föstudag.

Bræðsluhelgin brást

Arngrímur Viðar segir að verslunin hafi meðal annars treyst á góða afkomu af viðskiptum ferðamanna á sumrin til að geta haldið úti heilsársstarfi. Þar hafi samkeppnin hins vegar farið harðnandi auk þess sem sumarið var erfitt.

„Stóra helgin okkar, Bræðsluhelgin gekk ekki upp veðurfarslega og þegar stóru viðburðirnir gefa ekki af sér er ekki hægt að lifa veturinn af. Það er hægt að rökstyðja að hafa allan veturinn með góðri veltu á sumrin. Það verður að viðurkennast að í júlí í ár var hún fjórðungur af því sem hún er á góðu ári.

Við finnum fyrir því sama og veitingastaðirnir, að tilhneiging sé sú að það sé dýrt á Íslandi og það eigi að versla í Bónus. Viðskiptin okkar við ferðamennina í dag voru einn ís og eitt epli. Þeir kíkja við en fara svo á tjaldsvæðið þar sem bíllinn þeirra bíður með fjórum stórum Bónuspokum. Við þetta er ekkert óeðlilegt.

Þetta er samkeppni og Bónus er vel kynnt merki á meðan smákaupmenn í litlum fiskiþorpum hafa ekkert í það að gera að láta vita af sér gagnvart ferðamönnum. Allar leiðbeiningar í bæklingum og umræða á samfélagsmiðlum miðast við að kaupa í ódýrustu búðunum, Bónus, Nettó og Krónunni.“


Sorgmæddir fastakúnnar

Arngrímur Viðar segir að úr því sem komið var hafi búðin varla lengur staðið undir starfsmanni. Umsjónin hafi því verið orðin að sjálfboðaliðavinnu sem hann sjái ekki en önnur verkefni kalli og þá sé tíminn ekki lengur til staðar.

Á sama tíma sitja Borgfirðingar uppi án dagvöruverslunar. Þau umskipti hafa verið hægfara en heimamenn benda á að fjarvera búðarinnar bitni verst á eldra fólki sem ekki sé reglulega á ferðinni yfir í Egilsstaði.

Með lokun búðarinnar sé dregið úr þjónustu á staðnum. Erfitt sé fyrir staðinn að kalla sig þorp þegar engin búð sé til staðar. Arngrímur Viðar segir Eyrina hafa átt sér sína föstu viðskiptavini í heimabyggð og þeim þyki súrt að horfa á eftir búðinni. „Þeir eru sorgmæddir og láta alveg í ljósi að það að hafa kjörbúð sé eitthvað sem sé nauðsynlegt til að þú megir kalla þig þorp. Ég get ekki annað en verið sammála þeim.“

Vonandi hægt að finna grundvöll fyrir verslun

Hjá Eyrinni hafa vissar vörur verið keyptar inn frá birgjum en einnig verslað inn hjá stærri verslunum á Egilsstöðum og endurselt með álagningu. „Til að hafa lagerinn sem minnstan og geta þjónustað sem best höfum við keypt inn tvisvar í viku og fyllt á.“

Arngrímur Viðar vonast til að hægt verði að finna lausn á verslunarmálum í Bakkagerði sem varð löggiltur verslunarstaður árið 1894. „Vonandi er hægt að finna einhvern grundvöll fyrir verslun á staðnum þótt þetta form sé komið að leiðarlokum. Kannski eru möguleikar í að menn sjái hag í að styrkja að hér sé verslun, til dæmis sveitarstjórn, þótt þetta mál hafi ekki verið rætt á þeim vettvangi enn.“

Borgarfjarðarhreppur var í síðustu viku tekið inn í verkefnið Brothættar byggðir sem haldið er úti af Byggðastofnun. „Þetta er hluti af því að vera brothætt byggð. Þessar verslanir koma til með að týna tölunni víðar en hér ef ekki finnst lausn.“

Arngrímur Viðar afgreiðir Bergvin Snæ Andrésson á föstudag. Mynd: GG

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar