Biðla til ráðherra um aðstoð við Mjóafjörð

Bæjarstjóri Fjarðabyggðar hefur óskað eftir því við ráðherra sveitarstjórnarmála að hann beiti sér fyrir aðgerðum sem miði að því að tryggja framtíð útgerðar í Mjóafirði. Byggðakvóti sem úthlutað hefur verið þangað er fallinn úr gildi og fæst ekki endurnýjaður.

Eins og Austurfrétt hefur áður greint frá hafa Mjófirðingar árlega fengið úthlutað 15 tonnum af byggðakvótum. Forsendur úthlutunarinnar eru nú runnar út og fékk Mjóifjörður engan byggðakvóta á yfirstandandi fiskveiðiári.

Óskað var eftir því að Byggðastofnun kæmi að málinu með sértækum byggðakvóta. Í minnisblaði atvinnufulltrúa Fjarðabyggðar sem lagt var fyrir bæjarráð á mánudag segir að þau svör hafi fengið hjá Byggðastofnun að Mjóifjörður fyllti engan vegin þau skilyrði sem þurfi til að fá úthlutað úr þeim potti.

Þá hafi verið leitað til sérfræðings hjá Fiskistofu sem helst hafi bent á að færa mætti hluta af byggðakvóta Stöðvarfjarðar til Mjóafjarðar. Stöðvarfjörður á 95 tonn óráðstafað frá fyrra ári svo í ár er úr 234 tonnum að spila.

Ekki þykir hins vegar fýsilegt að fara að skipta kvóta milli jaðarbyggða, meðal annars því byggðarkvótinn hefur haft afar jákvæð áhrif á Stöðvarfjörð. Meðal annars í því ljósi fól bæjarráð bæjarstjóra að funda með ráðherra sveitarstjórnarmála.

Í samtali við Austurfrétt segir Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri, að samtal sé hafið við ráðuneytið um hvaða lausnir séu í boði þar sem allar hefðbundnar leiðir séu lokaðar. Ekkert liggi þó fyrir úr þeim umræðum.

Bæjarráð hefur í fyrri bókunum sínum um málið varað við að byggðin í Mjóafirði sé brothætt og á henni kunni að verða enn frekari röskun verði staðnum ekki úthlutað kvóta.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.